Kosningaeftirlit í Georgíu
Nr. 123
frá utanríkisráðuneytinu
Þingkosningar fara fram í Georgíu sunnudaginn 2. nóvember næstkomandi og mun utanríkisráðuneytið senda þrjá Íslendinga til kosningaeftirlits á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem hefur eftirlit með kosningunum. Þeir eru Dagný Jónsdóttir alþingismaður, Hjördís Finnbogadóttir fréttamaður og Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir sendiráðsritari. Um 400 eftirlitsmenn á vegum ÖSE ásamt eftirlitsmönnum á vegum þingmannasamtaka ÖSE og þingmannasamtaka Evrópuráðsins munu fylgjast með kosningunum. Þátttaka Íslands í kosningareftirlitinu fellur undir aukið framlag utanríkisráðuneytisins til uppbyggingar- og friðarstarfs á vegum ÖSE, Sameinuðu þjóðanna og NATO.
Nánari upplýsingar um þingkosningarnar í Georgíu má finna á heimasíðu ÖSE á slóðinni www.osce.org.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. október 2003