Hoppa yfir valmynd
31. október 2003 Matvælaráðuneytið

Öndvegissetur við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins

Ágætu samkomugestir.

Frá því ég varð iðnaðarráðherra hefur mikilvægi byggingarannsókna oft borið á góma. Ég held að ekkert einstakt rannsóknarverkefni hafi oftar verið fært í tal við mig en rannóknir á alkalívirkni steinsteypu og hvernig tókst að vinna bug á þeirri miklu meinsemd. Ég hef þó alltaf gert mér grein fyrir að STEINSTEYPA er lang mikilvægasta byggingarefnið á Íslandi og jafnframt eina alíslenska byggingarefnið. Segja má að steinsteypa sé grundvöllur velmegunar á Íslandi en án hennar hefði ekki verið unnt að beysla fallvötnin til rafmagnsframleiðslu og hún gegnir lykil-hlutverki í samgöngukerfi og húsakosti á Íslandi.

Ég minntist á þetta við setningu þriðju alþjóðlegu ráðstefnunnar um Sjálfútleggjandi steinsteypu var haldin hér á landi í ágúst sl. Það vakti athygli mína hversu sú ráðstefna var vel sótt, en ráðstefnugestir voru um 240 frá öllum heimsálfum. Einnig hefur heilmikið rit með erindum ráðstefnunnar vakið athygli enda mikið að stærð og inntaki. Ráðstefnan tókst sérstaklega vel og mun bera hróður Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og íslensks byggingariðnaðar víða. Hart var barist um að fá að halda þessa ráðstefnu en Rb varð fyrir valinu vegna þess að stofnunin er í fararbroddi á þessu sérsviði steinsteypufræðanna. Ég held að ráðstefnan í ágúst hafi skipt okkur meira máli en marga grunar og komið okkur vel fyrir á hinu alþjóðlega korti byggingarannsókna. Opnun öndvegissetursins í dag er rökrétt framhald þess - og ég fagna því.

Þrátt fyrir alla þá kosti sem steinsteypan býr yfir hefur ávallt fylgt henni eitt stórt vandamál. Í steypuna hefur þurft að blanda vatni langt umfram það sem þarf til þess að efnahvörfin eigi sér stað og steypan harðni. Á mínum uppvaxtarárum var þetta nú talið til kosta steypunnar - það mætti að skaðlausu skvetta svolítlu af vatni í hana - ef það væri nauðsynlegt til þess að koma henni í mótin og fá viðunandi þjöppun. Það var aftur á móti minna tekið tillit til þess að umframvatnið rýrir gæði steypunnar. Íblöndun vatns á byggingarstað hefur verið megin vandamál frá upphafi, - en menn hafa viljað meira vatn til þess að létta sér vinnuna við niðurlögn og titrun.

Undanfarna áratugi hafa orðið nokkrar framfarir við þróun efna sem auka þjálni steinsteypu án þess að skaða hana. Það er þó ekki fyrr en á seinustu árum að raunveruleg bylting hefur átt sér stað með tilkomu sjálfútleggjandi steinsteypu - svo kallaðri SÚLPAKK steypu - en það er steinsteypa sem flæðir í mótin án titrunar og án viðbótarvatns. Þessi bylting byggist á tvennu : annars vegar á þróun á virkari þjálniefnum og hins vegar á nýrri mælitækni til þess að mæla áhrif efnanna á flæðanleika steinsteypunnar. Byltingin er í fullum gangi og SÚLPAKK steypa er notuð í stöðugt vaxandi mæli, en verulegra rannsókna er þó þörf áður en hún nýtist í allar steypur.

Við Íslendingar eru svo heppin að flotfræði sementsbundinna efna hefur verið áherslusvið við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sl. áratug. Við stofnunina starfa tveir sérfræðingar sem lokið hafa doktorsprófi á þessu sviði, annar með áherslu á fræðilega flotfræði en hinn með áherslu á mælitæknina og hefur hann þróað það mælitæki sem þykir best í heiminum í dag og nefnist BML viscometer. Er það framleitt á Íslandi og hefur verið selt til helstu rannsóknastofnana í öllum heimsálfum. Vegna viðurkenndrar sérþekkingar á sviðinu hefur verið unnið við Rb undanfarin ár að fjölda rannsókna - og þróunarverkefna fyrir marga helstu framleiðendur í sements- og steypuiðnaðinum í Evrópu og Ameríku auk rannsókna sem styrkt hafa verið af RANNÍS og fleiri innlendum aðilum. Sum þessara verkefna eru grunnur að doktorsnámi og meistaranámi sem unnið er að við Rb.

Góðir samkomugestir.

Uppbygging aðstöðu og sérfræðiþekking á sviði flotfræði steinsteypu er dæmi um að lítil lönd og litlar stofnanir geta orðið leiðandi í heiminum á ákveðnum sviðum sem krefjast mikillar sérfræðiþekkingar og góðrar aðstöðu. Þótt flotfræði steinsteypu sé þröngt sérfræðisvið eru áhrifin mikil því að þetta svið er grundvöllur að þeirri byltingu sem nú á sér stað í steypuiðnaðinum og er raunar á byrjunarstigi.

Mér er það því sönn ánægja að opna þetta öndvegissetur og óska

Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins velgengni á þessu sviði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta