Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 1. - 7. nóvember

Velheppnað Heilbrigðisþing 2003
Velheppnuðu Heilbrigðisþingi 2003 lauk síðdegis í dag. Þingið hófst með ávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra sem setti þingið. Yfirskrift þess var Háskólasjúkrahús á Íslandi - framtíðarsýn, hlutverk og samfélagsleg ábyrgð. Fluttir voru 18 fyrirlestrar um efnið og haldnar voru tvennar pallborðsumræður, aðrar um framtíð háskólasjúkrahúss og hinar um kennslu, vísindi og rannsóknir á háskólasjúkrahúsi. Jón Kristjánsson sleit svo þinginu síðdegis með því að verðlauna Þorvarð Örnólfsson, lögfræðing, fyrir áratuga langa og ötula baráttu gegn reykingum og flutti ráðherra stutt ávarp við það tækifæri. Allir fyrirlestrar Heilbrigðisþings 2003 birtast á næstunni á heimasíðu heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins.

Ávísun og notkun kannabisefna í lækningaskyni
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi um hvort heilbrigðisyfirvöld hafi tekið afstöðu til þess hvort leyfa eigi ávísun og notkun kannabisefna í lækningaskyni. Í svari ráðherra kom m.a. fram að lyf af flokki kannabisefna, þ.e. Tetrahydro-Cannabiol, hafi verið á lyfjamarkaði í yfir 20 ár og að engar formlegar hindranir séu í vegi fyrir því að slík efni séu notuð í lækningaskyni á Íslandi. Ráðherra sagði íslenska sjúklinga iðulega þurfa á lyfjum að halda sem ekki séu á markaði hér á landi og kannabislyf teljist í þeim flokki. Ekki væri ástæða til að meðhöndla kannabislyf á annan hátt en nú væri gert við önnur lyf án markaðsleyfis, en fram kom hjá ráðherra að mögulegt er að sækja um að flytja slík lyf inn handa einstökum sjúklingum.

Upplýsingaflæði milli starfsmanna, stétta og stofnana mikilvægasta öryggismál sjúklinga
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra styður þá hugmynd landlæknis að efla rannsóknarmöguleika á atvikum sem gerast í heilbrigðisþjónustunni og segir ekkert því til fyrirstöðu að landlæknisembættið komi sér upp nefnd til að vinna frekar að rannsóknum ákveðinna mála. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi um öryggismál sjúklinga þar sem m.a. var spurt hvort ákveðið hefði verið að setja á stofn rannsóknarnefnd slysa eða mistaka innan heilbrigðiskerfisins. Ráðherra minnti á að rannsóknaferli mistakamála innan heilbrigðisþjónustunnar séu í ákveðnum lögbundnum farvegi bæði hjá landlæknisembættinu, sem hafi mjög veigamiklu hlutverki að gegna í þessum málum, og í vissum tilfellum hjá lögreglu. Ekki væru forsendur eða þörf á að leggja til breytingar á þeim vinnuferlum. Hann sagði tölur sýna að íslensk heilbrigðisþjónusta væri örugg í alþjóðlegum samanburði sem væri til marks um að heilbrigðisstéttir hafi borið öryggismál sjúklinga fyrir brjósti við störf sín. Ráðherra lýsti því enn fremur að hann teldi eitt mikilvægasta öryggismál sjúklinga væri upplýsingaflæði milli einstakra starfsmanna, starfsstétta og stofnana, t.d. milli heilsugæslu, sérfræðistofu og sjúkrahúsa. Þetta væri einn af þeim þáttum em beina bæri sjónum að í nánustu framtíð. Sagði hann að rafræn samskipti byðu fjölmarga möguleika til að bæta þennan öryggisþátt og áhersla væri lögð á það í heilbrigðisráðuneytinu að efla rafrænar færslur með þetta í huga.

Endurútgáfa landlæknisembættisins á líffæragjafakortum og bæklingi um líffæragjöf
Landlæknisembættið hefur gefið út að nýju bæklinginn Líffæragjafi með þremur áföstum líffæragjafakortum sem hægt er að taka úr bæklingnum og fylla út. Með því að vera þessi kort á sér er fólki gert kleift að lýsa yfir vilja sínum varðandi líffæragjafir. Á heimasíðu landlæknisembættisins er nánar sagt frá þessu og hvetur embættið fólk til þess að taka yfirvegaða og sjálfstæða afstöðu til líffæragjafar.
MEIRA...

Barnaspítala Hringsins færðar 5 milljónir króna að gjöf
Friðrik E. Sigtryggsson færði Barnaspítala hringsins 5 milljónir króna á afmælisdegi sínum 21. október síðast liðinn. Á afmælisdegi Friðriks árið 2001 var stofnaður Styrktarsjóður sem ber nafn gefandans en hann gaf þá 2,5 milljónir króna í stofnfé. Tilgangur sjóðsins er að styðja starfsemi Barnaspítala Hringsins með gjöfum til tækjakaupa eða á annan hátt sem þjónar velfrð skjólstæðinga Barnaspítala Hringsins að mati stjórnar sjóðsins.
MEIRA...

Er heilsu haldið til haga? - dagskrá í tilefni norræns skjaladags
Þjóðskjalasafn Íslands og landlæknisembættið standa fyrir sameiginlegri dagskrá með yfirskriftinni Er heilsu haldið til haga í tilefni norræna skjaladagsins. Viðfangsefni dagsins að þessu sinni verður líkami, heilsa og íþróttir. Vísað er til hlutverks samfélagsins að varðveita heimildir um sögu heilsufars og um leið er dagskránni ætlað að vekja landsmenn til umhugsunar um varðveislu heilsunnar sem einstaklingar og sem þjóð. Dagskráin hefst klukkan 11 með opnun sýningar á skjölum landlæknisembættisins sem geymd eru í Þjóðskjalasafni...
MEIRA...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
7. nóvember 2003



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta