Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2003 Utanríkisráðuneytið

Íslensk lög af erlendri tungu: um lagaþýðingar á Íslandi

Stefna utanríkisráðuneytisins í lagaþýðingum


Ýmsar skyldur fylgja því að vera fullvalda ríki með eigin þjóðtungu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Ísland varð fullvalda ríki fyrir réttum 85 árum eða með sambandslögunum sem öðluðust gildi 1. desember árið 1918. Samkvæmt samningnum fóru Danir með utanríkismál Íslands í umboði þess og í samningnum var sérstaklega kveðið á um réttinn til að stofna til samninga við önnur ríki. Í sambandslagasamningnum sagði nefnilega: “Ríkjasamningar þeir, sem Danmörk gerir eftir að sambandslög þessi hafa náð staðfestingu, skuldbinda ekki Ísland, nema samþykki réttra íslenskra stjórnvalda komi til.” Þar með var viðurkenndur réttur okkar til þátttöku í samfélagi fullvalda ríkja en í honum felst m.a. vald til að stofna til tvíhliða eða fjölþjóðlegra samninga. Það var svo árið 1940 sem við tókum meðferð utanríkismála að öllu leyti yfir, með sérstökum bráðabirgðalögum þar um, eða daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku.

Áður en sambandslagasamningurinn var gerður við Dani, sem í raun var milliríkjasamningur milli tveggja fullvalda ríkja eins og Sigurður Líndal hefur bent á, er einungis vitað um tvo samninga Íslendinga, sem fullgilds samningsaðila við erlend ríki. Sá fyrri mun hafa verið samningur við Ólaf konung Haraldsson sem réð ríkjum í Noregi frá árinu 1014 (tíuhundruð og fjórtán) til ársins 1030 (tíuhundruð og þrjátíu). Sjálfur samningurinn er týndur en efni hans er skráð í Konungsbók og Skinnastaðabók. Hinn samningurinn er sjálfur Gamli sáttmáli frá árinu 1262 en með honum tóku Noregskonungar og Danakonungar, sem arftakar þeirra, við samningsrétti fyrir hönd Íslendinga. Það liðu því 656 ár frá gerð Gamla sáttmála þangað til Ísland öðlaðist samningsrétt að nýju.

Tuttugasta öldin

Samskipti ríkja hafa vaxið jafnt og þétt alla tuttugustu öldina og mikilvægi alþjóðalaga eða þjóðaréttar hefur aukist gífurlega. Margt kemur til. Tvær heimsstyrjaldir með stuttu millibili urðu til þess að alþjóðasamfélagið fann sig knúið til að koma lögum yfir styrjaldir og tryggja margvísleg mannréttindi með sérstökum samningum sem sést best á öllum þeim alþjóðlegu mannréttindasamningum og mannúðarsamningum sem gerðir voru upp úr miðri síðustu öld. Einnig tóku ríki í auknum mæli upp náið samstarf sín í milli um sameiginlega hagsmuni sem þau töldu að tryggja myndi öryggi og jafnvægi í sambúð þjóðanna. Úr þessum jarðvegi spretta m.a. fjölþjóðlegar stofnanir eins og Sameinuðu Þjóðirnar, Evrópuráðið, Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Þá er ótalið allt það samstarf sem ríki hafa efnt til á sviði viðskipta og efnahagsmála og nægir hér að nefna GATT (hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti frá árinu 1947) og Efnahags- og framfarastofnunina OECD. Það er einmitt einkum á sviði alþjóðaviðskipta sem ríkjum varð ljóst að samræmdar leikreglur þyrftu að gilda svo allir sætu við sama borð. Og sem fullvalda þjóð í samfélagi þjóðanna höfum við ekki getað látið okkar eftir liggja til að tryggja hagsmuni okkar með því að taka á okkur þær þjóðréttarlegu skuldbindingar og öðlast þau réttindi sem í slíkum ríkjasamskiptum felast.

Umfangið

Erfitt er að áætla með fullkomnum hætti hvert umfang þeirra alþjóðasamninga er sem Ísland á aðild að. Ísland er nú aðili að um 50 alþjóðastofnunum og alþjóðasamtökum en á vettvangi þeirra eru gerðir samningar og ákvarðanir teknar sem hafa með beinum hætti áhrif á daglegt líf okkar og umhverfi. Ætla má að við eigum nú aðild að að vel á fjórða hundrað fjölþjóðlegum samningum en elsti samningurinn sem í gildi er er frá árinu 1856. Það er yfirlýsing um nokkur undirstöðuatriði sjóréttar á stríðstímum. Í mörgum tilfellum er einnig um að ræða aðild okkar að viðaukum, viðbótarbókunum, bókunum, breytingum og samþykktum við þessa fjölþjóðlegu samninga sem eru oft ekki efnisminni en aðalsamningurinn. Þá eru tvíhliða samningar okkar við önnur ríki ekki miklu færri, eða vel á fjórða hundrað talsins, en þeir fjalla um hin margvíslegustu efni, svo sem landamæri, frið, grið, vináttu, hlutleysi, verslun, framsal sakamanna, flugmál, siglingar, lausn deilumála o.s.frv.

Árið 1963 stóð utanríkisráðuneytið fyrir átaki í að birta samninga Íslands við önnur ríki. Meðal þess sem var ekki síst mikilvægt að gera var að skera úr um hvaða samningar voru í raun í gildi, m.a. að því er varðar þá sem gerðir voru fyrir daga fullveldisins. Elstu samningarnir sem þá voru prentaðir voru ritaðir á latínu sem var notuð í viðskiptum milli ríkja áður en franskan hófst til vegs sem viðskiptamál vestrænna ríkja. Eftir fyrri heimsstyrjöldina tók enskan yfirhöndina og hefð skapaðist fyrir því að Alþjóðastofnanir notuðu ensku og frönsku jöfnum höndum. En samtímis hófst sú þjóðlega stefna að þegar ríki gerðu samninga sín á milli væru mál beggja samningsaðila notuð, en þar er einkum um að ræða tvíhliða samninga.

Árið 1971 var það svo bundið í lög að utanríkisráðuneytið sæi um skrásetningu allra samninga Íslands við önnur ríki og útgáfu þeirra. Eins og ég mun koma að nánar hér á eftir hefur allar götur síðan verið unnið eftir þeirri stefnu að samningar Íslands við erlend ríki skuli þýddir á íslensku.

Þegar hér er komið sögu vil ég sérstaklega undirstrika að gera verður greinarmun á þeirri lagaskyldu að samningar við önnur ríki skuli birtir í C-deild Stjórnartíðinda, skv. birtingarlögunum eins og gert hefur verið frá árinu 1962, og hins vegar því að þeir skuli þýddir. Birtingarlögin segja ekkert um það að íslensk þýðing skuli fylgja birtingu samninganna. Þeir samningar sem hér koma fyrst og fremst til álita eru fjölþjóðlegir samningar sem við erum aðilar að og hafa ekki íslenskan samningstexta öfugt við tvíhliða samninga sem nær undantekningarlaust eru einnig gerðir á íslensku, svo hinn íslenski samningstexti er birtur. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að birting samninga í Stjórnartíðindum hefur ekki þýðingu að því er varðar gildi þeirra gagnvart hinum aðildarríkjunum heldur veit hún fyrst og fremst að borgurunum.

EES-samningurinn

Það var þó ekki fyrr en með aðild okkar að EES-samningnum fyrir um 11 árum að þýðingarmálin fóru að skipa jafn stóran sess í starfsemi ráðuneytisins og raun ber vitni. EES-samningurinn nýtur nokkurrar sérstöðu sem fjölþjóðlegur samningur sem felst m.a. í því að okkur ber skylda til að taka gerðir Evrópusambandsins sem undir hann heyra upp í íslenskan rétt. Að auki má segja að sú skylda hvíli á okkur samkvæmt lokaákvæðum samningsins að þýða gerðirnar sérstaklega en samningurinn sjálfur er gerður á tungumálum allra aðildarríkja hans, þ.á m. íslensku.

Með þeim skuldbindingum sem felast í EES-samningnum tókumst við þannig á hendur gífurlega mikið verk í þýðingarmálum. Í raun var það ekki meginmál samningsins sem þar skipti mestu heldur þær 1400 gerðir Evrópusambandsins sem samningnum fylgdu. Það varð því að grípa til sérstakra ráðstafana til að mæta því og árið 1990 var Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins stofnuð með það í huga en meginhlutverk hennar er að þýða EES-gerðir. Nú er talið að um 4000 gerðir séu hluti af EES-samningnum og því má ætla að milli 300-400 gerðir séu teknar upp í EES-samninginn að meðaltali á ári hverju.

Ekki fer á milli mála að EES-samningurinn hefur haft mikil áhrif á íslenska löggjöf. Hann hefur til að mynda hraðað þróun löggjafar á fjölmörgum sviðum, auðveldað aðlögun laga og reglugerða að breytingum á ýmsum sérsviðum sem eru í örri þróun og má til dæmis nefna samgöngur og fjarskipti. Eins og forstöðumaður Þýðingarmiðstöðvarinnar mun koma inn á hér á eftir hafa áhrif hans ekki síst falist í þeirri geysilegu nýyrðasmíð og samræmingu á orðnotkun sem oftar en ekki hefst þegar gerðir eru þýddar, eða í Þýðingarmiðstöðinni. Þær þýðingar eru svo lagðar til grundvallar við innleiðingu viðkomandi gerða í íslenskan rétt. Birting EES-gerða í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB er einn angi af því mikla verkefni sem við höfum orðið að leysa með aðild okkar að EES-samningnum en ég mun ekki dvelja við það efni hér.

*****

Hvers vegna þýðum við samninga Íslands við erlend ríki, og hvers vegna lítum við á það sem svo sjálfsagðan hlut? Þegar ég gerði mér það til gamans að spyrja samstarfsfólk mitt varð mér ljóst að það þykir svo sjálfsagt að jafnvel þeir sem vinna við þýðingarnar dags daglega höfðu ekki velt fyrir sér neinni sérstakri ástæðu. Þetta er einfaldlega eitthvað sem við gerum. Rökin liggja sem sagt ekki í augum uppi þó manni kunni að virðast það við fyrstu sýn. Þau eiga sér djúpar rætur og hafa til dæmis með það að gera hvað það er sem gerir okkur að þjóð.

Það fer ekki á milli mála að alþjóðasamstarf hefur í sífellt meira mæli mótandi áhrif á líf okkar. Mikilvægt er að almenningur eigi greiðan aðgang, á eigin tungu, að þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Utanríkisráðuneytið hefur fylgt þeirri stefnu um langt skeið að samningar Íslands við erlend ríki skuli þýddir og þeir birtir með íslenskri þýðingu. Ennfremur að íslensk þýðing samninganna fylgi þegar þeir eru sendir forseta Íslands eða Alþingi til staðfestingar eða fullgildingar. Þetta er vonandi mikilvægt framlag til varðveislu tungunnar.

Hér að framan hef ég reynt að varpa ljósi á umfang hinna ýmsu þjóðréttarsamninga sem við eigum aðild að. Í utanríkisráðuneytinu er rekin stór þýðingarmiðstöð en auk hennar fer fram mikil starfsemi á þjóðréttarskrifstofu ráðuneytisins við útgáfu á þjóðréttarsamningum. Er þá ótalin sú vinna sem fer fram hjá sjálfstæðum þýðendum fyrir stjórnvöld.

Þetta eru m.a. þær skyldur sem fylgja því að vera fullvalda þjóð með eigin þjóðtungu. Mér er ekki örgrannt um að miðað við hversu verkið er mikið ættum við kannski að vera duglegri að berja okkur á brjóst fyrir það hve vel hefur til tekist.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta