Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2003 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðaustur - Atlantshafsfiskveiðiráðsins

Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneytinu


Föstudaginn 14. nóvember s.l. lauk 22. ársfundi Norðaustur - Atlantshafsfiskveiðiráðsins, NEAFC, en hann var haldinn í London í síðustu viku. Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl fyrir árið 2004.

Á fundinum var kynnt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni felst að haga eigi stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að á svæðinu séu tveir karfastofnar, annar veiddur innan og við lögsögumörk Íslands og hinn sunnan við Hvarf á Grænlandi. ICES lagði til að veiðum yrði stjórnað þannig að ekki væri hætta á að annar hvor stofninn yrði ofveiddur. Sem kunnugt er hafa úthafskarfaveiðar Íslendinga að mestu leyti beinst að þeim fyrrnefnda þar til á síðustu árum er veiðum hefur einhliða verið stjórnað í samræmi við ráðgjöf ICES. Ísland lagði á það ríka áherslu á fundinum að stjórn veiðanna yrði hagað í samræmi við ráðgjöf ICES. Kynntu Íslendingar m.a. niðurstöður rannsókna sem styðja það að stjórnun á úthafskarfaveiðunum verði að breyta. Þrátt fyrir þessar niðurstöður fékkst ekki rædd breytt stjórnun veiða. Þess í stað kom fram tillaga um einn heildarkvóta úr báðum stofnunum, alls 120 þúsund tonn. Var tillaga þessi samþykkt á fundinum gegn atkvæðum Íslendinga og Rússa. Sendinefnd Íslands mótmælti tilllögunni harðlega og taldi ófært að fallast á hana þar sem hún gengi þvert á tillögur ICES, auk alþjóðlegra samninga og samþykkta um stjórn veiða á deilistofnum. Lýsti sendinefnd Íslands áhyggjum af því að í samþykktum NEAFC væri ítrekað gengið framhjá hagsmunum strandríkja og rétti þeirra til að stjórna auðlindum innan lögsagna sinna. Ísland er ekki bundið af þessari samþykkt NEAFC og mun ákvarða með hvaða hætti veiðum íslenskra skipa verður stjórnað. Að frumvæði Íslands var samþykkt að koma á fót sérstökum vinnuhópi til að skoða stjórnun á veiðum á karfa.

Eins og kunnugt er hafa Norðmenn krafist þess að skipting heildaraflaheimilda milli strandríkja í norsk-íslenskri síld (Ísland, Noregur, Færeyjar, Rússland og Evrópusambandið) verði endurskoðuð. NEAFC hefur, á síðustu árum séð um stjórnun veiða á úthafinu á grundvelli samkomulags strandríkjanna. Þar sem enn hefur ekki náðst samkomulag milli strandríkjanna um heildarstjórnun veiða, er að svo komnu máli ekki í gildi neitt heildarsamkomulag um veiðar á norsk - íslenskri síld fyrir árið 2004. Ráðgjöf ICES miðast við að heildarveiðin verði ekki umfram 825 þúsund tonn árið 2004, en það er hækkun úr 710 þúsund tonnum frá því í ár.

Ekki náðist heldur samkomulag um skiptingu veiðiheimilda í kolmunna og stefnir því í að veiðum á árinu 2004 verði áfram stjórnað einhliða af hverri aðildarþjóð fyrir sig. Hins vegar verður viðræðum haldið áfram milli aðila á næstunni og reynt til þrautar að ná samkomulagi enda er veiði undanfarinna ára langt umfram þau 925 þúsund tonn, sem er ráðgjöf ICES.

Samþykkt var tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Sá mikilvægi áfangi náðist á fundinum voru samþykktar reglur um hertar aðgerðir gegn ólöglegum veiðum á NEAFC svæðinu, en þær hafa verið vaxandi vandamál á undanförnum árum. Þannig hefur allt að fjórðungur veiða á karfa á svæðinu verið stundaður af skipum sem ekki hafa heimildir til slíkra veiða. Jafnframt var samþykkt tillaga Íslendinga um breytingu á tilkynningum til NEAFC áður en farið er yfir lögsögumörk

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kolbeinn Árnason skrifstofustjóri í Sjávarútvegsráðuneytinu.



Sjávarútvegsráðuneytið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta