Aðgerðir gegn ref og mink
Umhverfisráðherra hélt fréttamannafund í Umhverfisstofnun í gær þar sem kynntar voru fyrirhugaðar aðgerðir sem miða að takmörkun á refa- og minkastofnunum. Á sama fundi var kynnt viðamikil skoðana- og viðhorfskönnun á meðal skotveiðimanna. [Nánar ...]
Umhverfisráðuneytinu hefur að undanförnu borist áskoranir frá Bændasamtökum Íslands, æðarbændum, Samtökum verslunarinnar, Landssambandi veiðifélaga og fleiri um að tekið verði markvissar á veiðum og veiðiaðferðum á mink og ref. Vegnum dýrum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og margir hafa áhyggjur af skaðsemi sem refir og minkar valda á mófuglum, rjúpu, varplöndum og fiskistofnum í ám og vötnum.
Í máli ráðherra kom fram að þrátt fyrir að miklum fjármunum hafi verið varið til þess að eyða mink og ref hafi árangurinn látið á sér standa. Allt bendi til þess að stofnarnir séu ekki að minnka.
Umhverfisráðherra hefur því ákveðið að skipa tvær nefndir, eina til að fjalla um mink og aðra til þess að fjalla um málefni refsins. Ástæðan fyrir því er sú að minkurinn er innflutt tegund og er talinn til meindýra en refurinn er hins vegar eina innfædda spendýrið á Íslandi og honum þarf að fækka en ekki útrýma. Minkanefndin hefur þegar verið skipuð og er henni m.a. falið að kanna mögulegar leiðir til þess að útrýma mink í íslenskri náttúru. [Nánar...]
Óskað hefur verið eftir tilnefningum í refanefndina frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skotveiðifélagi Íslands. Formaður nefndarinnar verður frá umhverfisráðuneytinu. Nefndinni verður falið að fjalla um veiðar á ref og stöðu hans í íslenskri náttúru og er ætlað að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. apríl 2004.
Fréttatilkynning 39/2003
Umhverfisráðuneytið
Verður sett inn:
Tafla sem sýnir refaveiði árin 1957 – 2002
Tafla sem sýnir minkaveiði árin 1957 – 2002
Heildarkostnaður ríkis og sveitarfélaga við refa og minkaveiðar árin 1996 - 2003