Ísland aðili að stofnun alþjóðlegs samstarfsvettvangs á sviði vetnis.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/2003
Ísland aðili að stofnun alþjóðlegs samstarfsvettvangs á sviði vetnis:
Stefnt að neytendamarkaði með
vetnisdrifin ökutæki fyrir 2020
vetnisdrifin ökutæki fyrir 2020
Neytendamarkaður fyrir vetnisdrifin ökutæki fyrir árið 2020 og þjónusta við þann markað á samkeppnishæfu verði er helsta markmið alþjóðlegs samstarfsvettvangs, sem formlega verður stofnaður í Washington í Bandaríkjunum í dag. Ísland er þar meðal stofnaðila. Það starf sem unnið hefur verið á sviði vetnismála hér á landi undanfarin misseri vekur vaxandi athygli víða um heim.
Bandarísk stjórnvöld eiga frumkvæði að stofnun hins alþjóðlega samstarfsvettvangs á sviði vetnis (International Partnership for the Hydrogen Economy – IPHE) og buðu Íslandi að gerast stofnaðili ásamt Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Frakklandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, S-Kóreu, Rússlandi og Þýskalandi. Það er mat bandarískra stjórnvalda að þessi fjórtán ríki séu í fararbroddi í rannsóknum og verkefnum sem tengjast vetnisvæðingu. Með samstarfinu er miðað að því að efla og auka samstarf um verkefni er lúta að vetnisrannsóknum m.a. á sviði framleiðslu, geymslu og dreifingu vetnis, þróun vetnisrafala, o.fl.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sækir stofnfundinn í Washington, sem haldinn er 19.-21. nóvember. Í erindi sínu á fundinum benti Valgerður Sverrisdóttir á að Ísland hentaði vel sem vettvangur alþjóðlegra vetnisrannsókna. Jafnframt vakti hún athygli á að stefna í vetnismálum á Íslandi væri hluti af stefnu í orku- og umhverfismálum.
Í kjölfar stofnfundarins verða settar á stofn tvær samstarfsnefndir: Stjórnarnefnd er sinnir stefnumörkun og framkvæmdanefnd sem mótar nánari áætlanir og sér um framkvæmd verkefna. Auk þess verður starfrækt sérstök skrifstofa í Washington sem sinnir rekstri samstarfsins og kostuð verður af Bandaríkjunum. Auk ráðherrafunda kallar samstarfið á reglubundna fundi embættismanna, sérfræðinga, fulltrúa fyrirtækja og annarra.
Það starf sem unnið hefur verið hér á landi á sviði vetnismála hefur á umliðnum misserum vakið vaxandi athygli víða um heim. Þetta kemur m. a. fram í vaxandi fjölda heimsókna til Íslands og fyrirspurna frá erlendum fjölmiðlum og fagfólki. Meðal þess sem vakið hefur athygli er opnun vetnisstöðvarinnar í apríl sl., stefnumörkun stjórnvalda á sviði vetnis frá árinu 1998 og árangur Íslands á sviði endurnýjanlegra orkulinda. Þá hafa rannsóknir á vetni sem hér hafa verið stundaðar um áratuga skeið vakið athygli. Við umfjöllun um verkefni á sviði vetnis hefur einnig komið í ljós að sú umfjöllun hefur sterk tengsl við aðra málaflokka s.s. orkumál, umhverfismál, loftslagsmál og ferðamennsku. Vaxandi umfjöllun um vetnismál víða um heim hefur því nýst Íslandi beint og óbeint í áðurnefndum málaflokkum og styrkt jákvæða ímynd Íslands.
Iðnaðarráðuneytið mun annast aðild Íslands að IPHE, í samvinnu við önnur ráðuneyti og stofnanir.
Ef óskað er nánari upplýsinga eða viðtala við iðnaðarráherra, er bent á að hafa samband við Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóra í síma 699-3613, en hann er í föruneyti ráðherra í Washington. Nánari upplýsingar um ráðherrafundinn er að finna á vefslóðinni www.usea.org/iphe.htm.
Reykjavík, 20. nóvember 2003.