Vaxandi klámvæðing áhyggjuefni
Vaxandi klámvæðing í samfélaginu var meðal annars til umfjöllunar á fundi norrænna jafnréttisráðherra í Stokkhólmi miðvikudaginn 19. nóvember síðastliðinn. Ákveðið var að setja á laggirnar sameiginlegt rannsóknarverkefni þar sem fjallað verður um klámvæðinguna frá kynjasjónarhorni. Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig stemma mætti stigu við mansali og hafa um það samstarf við Eystrasaltsríkin og Rússland.
Íslendingar munu leiða norræna jafnréttissamstarfið á næsta ári. Þeir leggja áherslu á að brjóta til mergjar orsakir viðvarandi launamunar kynjanna. Þrátt fyrir aðgerðir til að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði er enn kynbundinn launamunur sem ekki hefur tekist að skýra. Unnið verður áfram að því að draga úr þessum mun og verður lögð rík áhersla á samstarf þeirra fagsviða sem fara með jafnréttismál og vinnumarkaðsmál í Norrænu ráðherranefndinni.
Til að jafnrétti á vinnumarkaði náist er nauðsynlegt að bæði kynin fái notið sín á sem flestum starfssviðum. Löngum hefur verið umrætt að konur skuli hasla sér völl á vettvangi karla, en minni áhersla verið lögð á að karlar fái tækifæri til að gegna umönnunar- og uppeldistörfum. Íslendingar leggja áherslu á að jafnréttismálin verði skoðuð frá þessum sjónarhóli. Á formennskutímanum verður hrundið úr vör rannsóknarverkefni um karla og jafnrétti. Íslendingar ætla jafnframt að beita sér fyrir því að gerð verði könnun á reynslu norrænna foreldra af fæðingarorlofi, einkum með tilliti til þess hvernig feður nýta sér það.
Á árinu 2004 verða 30 ár liðin frá því að norræna ráðherranefndin á sviði jafnréttismála var stofnuð. Íslendingar ætla að minnast þess með sérstökum hætti, meðal annars með því að líta til baka yfir áratuginn 1974–2004 og sjá hvað áunnist hefur á þessu sviði og hvað hefði betur mátt fara.
Íslendingar leggja mikla áherslu á áframhaldandi samstarf við Eystrasaltsríkin á sviði jafnréttismála. Árni Magnússon félagsmálaráðherra mun á næsta ári boða til sameiginlegs fundar jafnréttisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á Íslandi. Einnig hefur verið ákveðið að halda ráðstefnu um kvennahreyfingar á Íslandi 10.–12. júní 2004.