Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra til Íran
Nr. 140
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund í Teheran með Kamal Kharrazi, utanríkisráðherra Íran. Ráðherrarnir ræddu tvíhliðasamskipti ríkjanna, mannréttindamál, einkum hvað varðar stöðu kvenna, afvopnunarmál, ástandið í Írak og Afganistan og deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Utanríkisráðherra gerði meðal annars grein fyrir ástæðu þess að íslensk stjórnvöld studdu ályktunartillögu um ástand mannréttinda í Íran á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Þá átti utanríkisráðherra fund með Habibollah Bitaraf, orkumálaráðherra, og ræddu þeir hugsanlegt samstarf ríkjanna hvað varðar nýtingu jarðhita.
Í för með utanríkisráðherra er viðskiptanefnd skipuð fulltrúum tíu íslenskra fyrirtækja sem hyggjast kanna viðskiptatækifæri í Íran.
Á morgun, þriðjudag 2. desember, heldur opinber heimsókn utanríkisráðherra áfram, þar sem hann mun eiga fundi með Mohammad Khatami, forseta og Mohammad Hojjati, sjávarútvegsráðherra Íran.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. desember 2003