Hoppa yfir valmynd
2. desember 2003 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur ÖSE í Maastricht 1.-2. desember 2003

Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) var haldinn í Maastricht 1.-2. desember 2003. Meginsamþykktir fundarins voru ný áætlun stofnunarinnar um viðbrögð við nýjum ógnum í öryggisumhverfi aðildarríkjanna auk ákvörðunar um eflingu baráttu ÖSE gegn mansali. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum samþykktu utanríkisráðherrar aðildarríkjanna fimmtíu og fimm sérstaka áætlun ÖSE um viðbrögð við nýjum ógnunum í öryggisumhverfi ríkjanna. Þar er lögð sérstök áhersla á fyrirbyggjandi starf ÖSE að átakavörnum, eflingu mannréttinda og lýðræðis auk aðgerða til að efla traust í samskiptum ríkja á sviði öryggismála. Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda ÖSE á vettvangi í aðildarríkjunum, gegni ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi.

Ráðuneytisstjóri áréttaði í ávarpi sínu mikilvægi starfa ÖSE í baráttunni gegn mansali, en fyrr á árinu var samþykkt sérstök aðgerðaáætlun um baráttu stofnunarinnar gegn mansali. Ráðherrafundurinn samþykkti ákvörðun um að efla starf ÖSE á þessu sviði enn frekar með því að koma á fót sérstakri skrifstofu innan stofnunarinnar, sem eingöngu sinnir baráttunni gegn mansali. Einnig kom fram í máli ráðuneytisstjóra að ÖSE þyrfti í ríkara mæli að gæta mannréttinda barna.

Gunnar Snorri Gunnarsson lagði jafnframt áherslu á starf ÖSE gegn hryðjuverkastarfsemi. Sérstakur vinnuhópur ÖSE um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi hefur verið starfræktur á þessu ári undir stjórn Þórðar Ægis Óskarssonar, fastafulltrúa Íslands hjá ÖSE. Vinnuhópurinn undirbjó tvær ákvarðanir utanríkisráðherrafundarins í Maastricht, annars vegar um aukið öryggi vegabréfa og ferðaskilríkja og hins vegar um nýtt samskiptanet ÖSE á sviði hryðjuverkavarna.

Meðfylgjandi er ávarp ráðuneytisstjóra á fundinum. Jafnframt er hægt að nálgast allar aðrar upplýsingar og yfirlýsingar ráðherrafundarins á vefsíðu ÖSE: www.osce.org.


raeda2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta