28. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf 2.-6. desember 2003
Nr. 144
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nú stendur yfir 28. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf, sem haldin er á fjögurra ára fresti.
Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins Gunnar Snorri Gunnarsson var fulltrúi íslenskra stjórnvalda á ráðstefnunni og flutti ávarp í almennri umræðu. Gerði hann grein fyrir framkvæmd á heitstrengingu íslenskra stjórnvalda frá 27. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem haldin var árið 1999. Fyrri heitstrengingin varðaði verndun barna í vopnuðum átökum og hefur Ísland nú fullgilt valfrjálsar viðbótarbókanir við ,,Samninginn um réttindi barnsins", önnur varðar sölu á börnum í barnavændi eða barnaklám en hin varðar þátttöku barna í vopnuðum átökum. Seinni heitstrengingin varðaði útgáfu Genfarsamninganna á íslensku en nú hefur verið lokið við þýðingu og unnið er að útgáfunni.
Ráðuneytisstjóri lýsti jafnframt yfir ánægju með þátttöku Alþjóðasambands Rauða krossins sem áheyrnarfulltrúa hjá Norðurskautsráðinu en Ísland fer um þessar mundir með formennsku í ráðinu. Sagðist hann vona að þetta gæti orðið grunnurinn að auknu samstarfi á milli Norðurskautsráðsins og Alþjóðasambands Rauða krossins.
Að lokum var gerð grein fyrir sameiginlegri heitstrengingu íslenskra stjórnvalda og Rauða kross Íslands, sem undirrituð var í dag af ráðuneytisstjóra og Sigrúnu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands. Heitstrengingarnar koma til framkvæmda á árunum 2004-2007 og varða samvinnu á sviði mannréttindalaga, bæði hvað varðar framkvæmd og útbreiðslu, stuðning við alnæmisverkefni Rauða kross Íslands í Suðurhluta Afríku og rannsókn á aðgengi jaðarhópa á Íslandi að heilbrigðisþjónustu.
Meðfylgjandi er ávarp ráðuneytisstjóra ásamt mynd sem tekin var eftir undirritun sameignlegrar heitstrengingar íslenskra stjórnvalda og Rauða kross Íslands. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Stefán Haukur Jóhannesson, fastafulltrúi hjá fastanefnd Íslands í Genf, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis, Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri RKÍ og Úlfar Hauksson, formaður RKÍ. Slóðin á heimasíðu ráðstefnunnar er http://www.icrc.org/eng/conf28.