Hoppa yfir valmynd
4. desember 2003 Dómsmálaráðuneytið

Málefni vegalausra barna á Íslandi og samstarf við Eystrasaltsráðið

Ákveðið hefur verið að skipa starfshóp undir forystu dómsmálaráðuneytisins sem hafi það hlutverk að móta tillögur um málsmeðferðarreglur og aðgerðaráætlun þegar erlend börn sem eru ein síns liðs óska hælis eða finnast óskráð.

Fréttatilkynning
31/2003

Á undanförnum árum hefur þess orðið vart í vaxandi mæli í nágrannaríkjum okkar að erlend börn sem eru ein síns liðs óska hælis eða finnast þar óskráð. Ýmislegt bendir til þess að sama þróun gæti orðið hér á landi en tilvik af þessu tagi eru þó fá enn sem komið er. Stór hluti þeirra barna sem komið hafa fram í Svíþjóð og Noregi koma frá nágrannaríkjum í austri sem áður voru hluti Sovétríkjanna og eru flest börnin á aldrinum 14- 18 ára, drengir fleiri en stúlkur. Þótt flest barnanna virðist vera í leit að betri lífsgæðum en þeim stendur til boða í heimalandi sínu, fer ekki hjá því að grunsemdir séu um að flutningar ungmennanna séu í einhverjum mæli hluti af skipulagðri glæpastarfsemi og börnin séu í raun nauðug og sé ætlað að taka þátt í vændi eða glæpum.

Á vettvangi Eystrasaltsráðsins, sem í eru Norðurlöndin fimm, Eystrasaltsríkin þrjú, Rússland, Pólland og Þýskaland, auk ESB, hefur nú með þátttöku Hvíta-Rússlands, Moldóvu og Úkraínu verið sett á laggirnar samvinna um hvernig með mál þessara barna skuli fara og vinna aðildarríkin nú að því að setja reglur um meðferð mála innan hvers lands til að tryggja móttöku og málsmeðferð í málum foreldralausra útlendra barna sem leita hælis eða eru án forsjár og að tryggja að börnin verði ekki send til upprunaríkis nema móttaka þeirra þar sé viðunandi. Hafa þátttökuríkin ákveðið að í hverju ríki verði tilnefndur einn aðili til að hafa yfirumsjón með því að viðbragðsáætlun sé fyrir hendi um umönnun barnanna og til að annast samskipti við slíka aðila í öðrum ríkjum og veita þeim upplýsingar. Er m.a. ætlunin að auðvelda þeim sem með mál barnanna fara að nálgast upplýsingar um til hvaða stofnana og stjórnvalda í upprunaríki megi leita, t.d. til að ganga úr skugga um hvaða barn um er að ræða og til að freista þess að finna foreldra þess eða forsjáraðila. Þegar mál varða börn og unglinga er sérstaklega brýnt að unnið sé hratt og örugglega, þess er vænst að með þessu fyrirkomulagi megi tryggja fljótvirkari samskipti en hefðbundnar leiðir í milliríkjasamskiptum hafa getað tryggt, en þeim sem tilnefndur er til þessara samskipta í hverju ríki ber skylda til að vísa málunum til réttra aðila innan lands þegar í stað.

Dómsmálaráðuneytið hefur verið tilnefnt til að gegna þessu hlutverki af Íslands hálfu, en mál af þessum toga varða fleiri stjórnvöld og félagasamtök. Nú eru ekki fyrir hendi skýrar reglur hér á landi eða samræmd áætlun um hvernig meðferð slíkra mála skuli komið fyrir, en leyst hefur verið úr þeim málum sem komið hafa upp á grundvelli gildandi útlendinga- og barnaverndarlöggjafar og með góðri samvinnu þeirra aðila sem að málunum hafa komið. Af þessu tilefni hefur verið ákveðið að skipa starfshóp undir forystu dómsmálaráðuneytisins sem hafi það hlutverk að móta tillögur til dómsmálaráðherra um málsmeðferðarreglur og aðgerðaráætlun sem unnið verði eftir þegar tilvik koma upp, þar sem um er að ræða erlend börn sem eru ein síns liðs. Óskað verður eftir tilnefningum til þátttöku í starfshópnum frá félagsmálaráðuneyti, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóra, Barnaverndarstofu og Rauða krossi Íslands.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu
4. desember 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta