Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel
Nr. 145
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Þar var m.a. fjallað um árangur af aðlögun bandalagsins að nýjum ógnum og fagnað þeim árangri sem náðst hefður í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Rætt var um fækkun í liðsafla bandalagsins á Balkanskaga og yfirtöku þess á friðaraðgerðum í Afganistan. Einnig ræddu ráðherrarnir undirbúning fyrir leiðtogafund bandalagsins í Istanbul í vor þar sem sjö ný ríki gerast formlega aðilar. Í því sambandi ítrekuðu þeir þá stefnu bandalagsins að dyr stæðu opnar ríkjum er uppfylltu skilyrði aðildar.
Utanríkisráðherra áréttaði boð ríkisstjórnarinnar um að Ísland taki að sér leiðandi samræmingarhlutverk á flugvellinum í Kabúl í Afganistan frá og með næsta vori.
Þá situr utanríkisráðherra hádegisverðarfund bandalagsins með utanríkisráðherrum sjö verðandi aðildarríkja þar sem rætt verður um Atlantshafstengslin. Ráðherra leggur í máli sínu áherslu á mikilvægi þessara tengsla og að samstaða ríkja beggja vegna Atlantshafsins sé grundvöllur sameiginlegra varna og ein helsta forsenda friðar og stöðugleika í Evrópu.
Síðar í dag funda utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og ræða framtíðarfyrirkomulag samstarfsins á Balkanskaga og hvernig unnt verði að efla samstarf samtakanna.
Í dagslok verður fundur sameiginlegs ráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands (NRC) og á morgun verður fundur bandalagsins og Úkraínu og svo Atlantshafssamstarfsráðsins.
Þetta var í síðasta skipti sem fráfarandi framkvæmdastjóri bandalagsins, Robertson lávarður, stjórnar utanríkisráðherrafundi en hann lætur af störfum um næstu áramót og voru honum þökkuð góð störf á umbreytingatímum. Þá lýstu ráðherrarnir fullum stuðningi við Jaap de Hoop Scheffer, verðandi framkvæmdastjóra bandalagsins.
Nánari upplýsingar um ofangreinda fundi er að finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins (www.nato.int), þ.á.m. yfirlýsingar fundanna.