Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í Genf í Sviss

Nr. 153


FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, í Genf í Sviss sem haldinn var dagana 15. - 16. desember. Ráðherrarnir ræddu stöðuna í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og lýstu ánægju sinni með að samstaða væri um að halda áfram Doha viðræðunum sem strönduðu í Kankún í september s.l.

Ráðherrarnir ræddu þróun mála í tengslum við fríverslunarsamninga EFTA ríkjanna við ríki í Evrópu og í öðrum heimsálfum. Þeir lýstu ánægju sinni með að samningar eru komnir langt við Líbanon, sem Ísland hefur leitt fyrir hönd EFTA ríkjanna. Einnig er stefnt að því að ljúka samningum við Egyptaland og Túnis fyrri hluta næsta árs. Samningar við Túnis höfðu lítið þokast í nokkurn tíma vegna ágreinings um fríverslun með fisk, en skriður komst á þær viðræður er EFTA ríkin buðu Túnis sérfræðiaðstoð vegna hugsanlegra áhrifa slíkra fríverslunarákvæða á sjávarútveg. Samningar við aðildarríki tollabandalags Suður-Afríku standa yfir og reynt verður að ljúka þeim fyrir lok næsta árs. Mikil áhersla er lögð á að ljúka samningum við Kanada á næstu mánuðum.

Við stækkun Evrópusambandsins næsta vor munu fríverslunarsamningar EFTA við átta af nýju aðildarríkjunum falla niður og samstarfið við þau færast inn á svið EES-samningsins. Samstarfið við þessi ríki eflist því til muna. Þróunarsjóður EFTA mun nýtast til að treysta þetta samstarf með því að styðja ýmsar framkvæmdir og þróunarverkefni í nýju aðildarríkjunum. Hann mun einnig veita EFTA ríkjunum tækifæri til þátttöku í slíkum verkefnum þar sem þekking þeirra getur komið að miklum notum.

Við fækkun fríverslunarsamninga skapast meira svigrúm til að gera nýja fríverslunarsamninga sem skapa sterkari samkeppnisstöðu fyrir fyrirtæki í EFTA ríkjunum á nýjum mörkuðum. Rætt var um möguleika á að gera samninga við Bandaríkin, Rússland, Japan, Suður-Kóreu, Tæland og önnur ríki sem EFTA ríkin hafa þegar gert samstarfsyfirlýsingar við.

Ráðherrarnir funduðu með EFTA þingmönnum og ráðgjafanefnd EFTA um áhrif stækkunar EES og aukin fríverslunartengsl EFTA ríkjanna við ríki utan Evrópu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta