Hoppa yfir valmynd
17. desember 2003 Matvælaráðuneytið

Vinnsluleyfi til handa Íslenska kalkþörungafélaginu ehf.

Í dag skrifaði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undir vinnsluleyfi til handa Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. til að taka og nýta kalkþörungaset sem er að finna á botni Arnarfjarðar. Um nokkura ára skeið hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða unnið að kortlagningu og rannsóknum á þessum setlögum og lét fyrr á þessu ári meta umhverfisáhrif vinnslunnar. Niðurstaða þessara rannsókna og matsins voru jákvæðar. Ein af forsendum umhverfismatsins og þar með leyfisins er að úrvinnsla kalkþörungasetsins fari fram við Arnarfjörð, en gert er ráð fyrir að það verði við Bíldudal.

Íslenska kalkþörungafélagið verður í 75% eigu írska fyrirtækisins CelticSea Minerals Ltd. og 25% eigu Björgunar hf. Félagið hefur verið full fjármagnað og er í sjálfu sér tilbúið til að hefjast handa við vinnsluna. Flöskuhálsinn er, að sögn forráðamanna félagsins, að eftir er að byggja viðlegukant við verksmiðjuna en miðað við viðbrögð, t.d. samgönguráðuneytisins, sjá þeir engin vandkvæði á að í það verði ráðist fljótlega.

Afkastageta verksmiðjunnar verður um 40.000 tonn á ári en reiknað er með að í fyrsta áfanga verði hún um 8.000 tonn á ári og stækkuð í þrepum í fulla getu í nokkrum áföngum. Heimsmarkaður fyrir kalkþörungamjöl er um 650.000 tonn á ári þannig að framleiðsla verksmiðjunnar við Bíldudal verður rúmlega 6% af heimsmarkaði. Um 10 til 15 manns fá vinnu í verksmiðjunni.

Áætlanir CelticSea Minerals gera ráð fyrir að verksmiðjan verði fullreist á árinu 2005 og framleiðsla hefjist þá um haustið. Framleiðslan, sem að lang mestu leyti er kalsíum karbónat (CaCO3) fer að mestu í dýrafóður sem fæðubótaefni. Sum setlög hafa snefilefni sem gera að verkum að efnið hentar til manneldis og segja forráðamenn írska fyrirtækisins að prófanir bendi til þess að það geti haft jákvæð áhrif á t.d. liðagigt. Hagnýting kalkþörungasets til manneldis er þó á byrjunarstigi og óvíst hvernig íslenska setið hentar til þess.

Undirskrift vinnsluleyfisins í dag markar upphaf á nýrri starfsemi við Bíldudal sem ástæða er til að fagna enda um verulega búbót fyrir samfélagið að ræða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta