Hoppa yfir valmynd
18. desember 2003 Innviðaráðuneytið

Almennar upplýsingar um neytendavernd ferðalanga

Fólk í ferðahugleiðingum leitar iðulega til samgönguráðuneytisins til að spyrjast fyrir um þær tryggingar sem gilda vegna kaupa á flugmiðum eða alferðum.

Af því tilefni hefur ráðuneytið tekið saman helstu atriði sem um neytendavernd gilda samkvæmt lögum um skipulag ferðamála. Ekki er fjallað um aðrar tryggingar en hinar lögboðnu, en fólki bent á að kanna tryggingar sínar hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Alferð:

Alferð er annað orð yfir pakkaferð með ferðaskrifstofu. Alferð er skilgreind sem fyrirfram ákveðin samsetning tveggja eða fleiri þjónustuþátta, sem seld er eða boðin til sölu á heildarverði. Þetta á jafnt við um ferðalög innanlands og til útlanda. Þekktustu dæmin um alferð eru svonefndar sólarlandaferðir eða ferðir þar sem keypt er flug, gisting og skoðunarferð. Flug og bíll, sem seld eru á heildarverði, er einnig dæmi um alferð.

Þessar ferðir falla undir lög um skipulag ferðamála og því eiga allir þeir sem þær selja að leggja fram tryggingu í samgönguráðuneytinu. Tryggingunni er ætlað að bæta það tjón sem ferðamaður getur orðið fyrir komi til gjaldþrots eða greiðslustöðvunar viðkomandi ferðaskrifstofu. Hafi viðskiptavinur pantað sér alferð og greitt staðfestingargjald á hann rétt á endurgreiðslu þess af tryggingafénu undir sömu kringumstæðum. Eigi einstaklingur gjafabréf sem ávísun á alferð yrði andvirði þess greitt af tryggingafé þótt ferðin hafi ekki verið hafin.

Leiguflug:

Leiguflug er einnig skilgreint í lögum um skipulag ferðamála. Það er annað flug en reglubundið áætlunarflug til flutnings á farþegum til og frá Íslandi, þegar aðili hefur tekið flugvél á leigu hjá flugrekanda.

Allir þeir sem selja sæti með leiguflugi þurfa að leggja fram tryggingu í samgönguráðuneytinu. Henni er einungis ætlað að tryggja heimflutning farþega komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots aðilans en greiðslur upp í leiguflug eru ekki endurgreiddar. Gjafabréf sem ávísun á leiguflugfar er ekki tryggt með ferðaskrifstofutryggingu samkvæmt lögunum.

Áætlunarflug:

Í reglugerð um flutningaflug er áætlunarflug skilgreint. Þar kemur m.a. fram að ferðirnar séu farnar svo títt og reglulega að augljóst er að fylgt sé ákveðinni áætlun. Einnig að sérhver flugferð standi almenningi til boða gegn greiðslu meðan rými er fáanlegt.

Áætlunarflug fellur ekki undir tryggingaskylduna í lögum um skipulag ferðamála. Því er farþegum ekki tryggð heimferð komi til gjaldþrots eða greiðslustöðvunar þess aðila sem ferðin var keypt hjá eða eftir atvikum flugrekandans. Gjafabréf sem ávísun á áætlunarflug er ekki tryggt með ferðaskrifstofutryggingu samkvæmt lögunum.

Nánari upplýsingar eru veittar í samgönguráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta