Ný vísinda- og tæknistefna Vísinda- og tækniráðs
Vísinda- og tækniráð, undir forystu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra kom saman í Ráðherrabústaðnum í dag 18. desember. Þetta er annar fundur ráðsins, sem starfar eftir lögum sem sett voru fyrr á árinu. Í ráðinu eiga sæti, auk forsætisráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra, ásamt fjórtán fulltrúum úr rannsóknum og atvinnulífi. Vísinda- og tækniráð er einstakur vettvangur þar sem mætast með reglubundnum hætti fulltrúar vísinda, atvinnulífs og ráðherrar úr ríkisstjórninni. Með þessu móti er kastljósi stjórnmálanna beint að vísindum og tækni sem eru drifafl þekkingarþjóðfélaga.
Á fundinum afgreiddi Vísinda- og tækniráð nýja stefnu í vísindum og tækni sem undirbúin hefur verið af tveimur starfsnefndum. Þar kemur fram að langtímaverkefnið er að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða. Það skilar þjóðinni nýrri þekkingu og færni sem nýtist m.a. í þeim tilgangi að:
- efla sjálfbæra nýtingu auðlinda, auka verðmætasköpun og fjölga áhugaverðum störfum í þekkingarsamfélagi,
- bæta heilsufar og félagslegt öryggi og stuðla að þroska og siðmennt í samfélagi þar sem athafnafrelsi og jafnrétti ríkir,
- treysta efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði og þar með grundvöll byggðar á Íslandi,
- auka áhrif Íslands á alþjóðavettvangi og aðlögun samfélagsins að breytilegum ytri aðstæðum.
Í þeim tilgangi að skapa enn betri forsendur fyrir þessari þróun hyggst ríkisstjórnin, í samvinnu við aðra þátttakendur á þessu sviði, beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum á kjörtímabilinu.
1.
Auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða og samhæfa starfsemi þeirra þannig að það nýtist sem best vísinda- og tæknirannsóknum og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
2.
Efla háskóla sem rannsóknastofnanir og byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi með því að einstaklingar og rannsóknahópar í háskólum keppi um fjárveitingar til rannsókna úr samkeppnissjóðum.
3.
Endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana með það að markmiði að sameina krafta þeirra og tengja starfsemi þeirra betur við háskólana og atvinnulífið í landinu.
Þá munu stjórnvöld beita sér fyrir margvíslegum öðrum aðgerðum sem miða að því að treysta innviði vísinda- og tæknikerfisins og stöðu Íslands sem þekkingarsamfélags í fremstu röð. Nánar tiltekið er stefnt að því að byggja upp öfluga rannsóknahópa til starfa í alþjóðlegu umhverfi, efla samstarf rannsóknastofnana, háskóla og fyrirtækja og veita rannsóknamenntun ungra vísindamanna í alþjóðlegu rannsóknaumhverfi aukið vægi.
Ennfremur munu stjórnvöld beita sér fyrir að tryggja sem frjálsastan aðgang almennings og notenda að opinberum rannsóknagögnum og niðurstöðum sem kostuð eru af opinberum fjárveitingum gegn sanngjörnum þjónustugjöldum og að setja lög er hvetji vísindamenn til að vernda rétt til hugverka sinna með einkaleyfum. Þá er talið brýnt að gæði rannsókna á vegum háskóla og rannsóknastofnana séu metin reglulega á grundvelli fag- eða starfsgreina eða þekkingarklasa og niðurstöður lagðar til grundvallar ákvörðunum um fjárveitingar og forgangsröðun.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér sérstaklega fyrir eflingu samkeppnissjóða á næstu árum og er stefnt að því að þeir hafi um tvöfalt meira árlegt ráðstöfunarfé en við upphaf kjörtímabilsins, eða um 1.750 m.kr. Í fjárlögum 2004 er gert ráð fyrir um 400 m.kr. aukningu á fjárveitingum og þar af renna 200 m.kr. í Tækniþróunarsjóð sem komið var á laggirnar fyrr á árinu og 100 m.kr. til verkefna sem miða að því að auka verðmæti sjávarfangs.
Vísinda- og tækniráð fundar tvisvar á ári og á milli funda starfa vísindanefnd, sem menntamálaráðherra skipar og tækninefnd sem iðnaðarráðherra skipar. Nefndirnar undirbúa umfjöllun mála í Vísinda- og tækniráði.
Í Reykjavík, 18.desember 2003.