Hoppa yfir valmynd
19. desember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Hlutur einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu breytist um áramótin

Fréttatilkynning nr. 53/2003

Komugjald í heilsugæslunni sama og það var 1993

- rétturinn til sérstakra endurgreiðslna rýmkaður
- afsláttarþök óbreytt

1. janúar 2004 taka gildi reglugerðir sem hafa í för með sér breytingar á kostnaðarhlut einstaklinga sem leita til heilsugæslustöðva, á hlut sjúkratryggðra sem leita til sérfræðilækna, og hlutdeild einstaklinga í þjálfunarkostnaði. Samtímis er réttur tekjulágra fjölskyldna sem bera mikinn kostnað vegna læknishjálpar, lyfjakaupa og þjálfunar rýmkaður. Engar breytingar verða á rétti einstaklinga til afsláttargjalds vegna þjónustu lækna eftir að tilteknu hámarksþaki er náð.

Komugjöld á heilsugæslustöðvar
Almenn komugjöld á heilsgæslustöðvar hækka um 100 krónur. Eftir breytinguna kostar 600 krónur að leita til heilsugæslulæknis, án afsláttar. Komugjaldið verður nú sama krónutala og árið 1993. Komugjald fyrir börn, elli- og örorkulífeyrisþega hækkar um 50 krónur og verður 300 krónur eftir breytingu, án afsláttar. Komugjöld á heilsugæslustöð, til heimilislæknis utan dagvinnutíma, eða á Læknavaktina hækka sömuleiðis um 100 krónur. Eftir breytinguna verður almennt gjald 1500 krónur fyrir heimsókn utan dagvinnutíma, án afsláttar, en 700 krónur fyrir börn, elli- og örorkulífeyrisþega, án afsláttar.

Gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu
Almennt grunnkomugjald til sérfræðilæknis hækkar um 600 krónur, án afsláttar, og verður eftir breytinguna 2700 krónur, en auk þess greiðir einstaklingur 40% af kostnaðinum sem umfram er, og breytist það hlutfall ekki. Grunnkomugjald barna, elli- og örorkulífeyrisþega til sérfræðilækna hækkar úr 700 krónum í 900 krónur, án afsláttar.

Hundraðshluti einstaklings í kostnaði við klíníska sérfræðilæknisþjónustu (vegið meðaltal á komu) hefur farið lækkandi undanfarin ár. Hann var um 44% árið 1997 en reiknað er með að hann verði um 33% eftir 1. janúar 2004. (Sjá nánar hjálagt yfirlit um breytingar á komugjöldum og dæmi um algengar komur til sérfræðilækna fyrir og eftir breytingu.)

Þjálfunarkostnaður
Engar breytingar verða á greiðsluhlutfalli elli- og örorkulífeyrisþega, barna og ungmenna vegna þjálfunarkostnaðar. Breytingin takmarkast við greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í þjálfun vegna annarra og felur í sér lækkun á greiðsluþátttöku almannatrygginga úr 50% í 40% af kostnaði við þjálfun. Þetta fyrirkomulag gildir um fyrstu 24 skiptin á ári fyrir sjúkratryggða einstaklinga aðra en lífeyrisþega, börn og unglinga undir 18 ára aldri. Fyrir sjúkratryggðan almennt þýðir breytingin hækkun um 280 krónur í hvert sinn sem viðkomandi kemur til sjúkraþjálfara.

Afsláttarþök óbreytt
Engar breytingar verða á rétti einstaklinga til lægra gjalds fyrir læknisþjónustu, eða afsláttargjalds, eftir að tilteknu þaki er náð. Þegar samanlagður lækniskostnaður einstaklings nær 18.000 krónum ári á viðkomandi rétt á afsláttarkorti. Þetta almenna 18000 króna afsláttarþak verður sem sé óbreytt áfram. Afsláttargjald tekur við hjá almenningi eftir að 18000 króna þakinu er náð, afsláttargjaldið tekur við hjá barnafjölskyldum þegar samanlagður kostnaður vegna lækniskostnaðar allra barna í sömu fjölskyldu nær 6000 krónum á ári, og elli-og örorkulífeyrisþegar njóta afsláttargjaldsins um leið og kostnaður þeirra á árinu fer yfir 4500 krónur. Afsláttarþak barna hefur verið óbreytt frá árinu 1993.

Reglur um endurgreiðslur til tekjulágra fjölskyldna rýmkaðar
Í þeim tilgangi að koma til móts við tekjulágar barnafjölskyldur eru viðmiðunarmörk árstekna, sem liggja til grundvallar endurgreiðslu vegna mikils kostnaðar við læknishjálp, lyf og þjálfun, hækkuð um ríflega 13%. Reglurnar fela í sér að fjölskylda sem hefur allt að 1750 þúsund krónur í árstekjur fær endurgreitt 90% af sjúkrakostnaðinum umfram 12.250 krónur á þriggja mánaða tímabili. Þegar fjölskyldutekjurnar eru allt að 2,6 milljónir króna á ári og sjúkrakostnaðurinn fer umfram 18.550 króna á þremur mánuðum endurgreiðir Tryggingastofnun þrjá fjórðu umframkostnaðarins. Við fjölskyldutekjur sem eru allt að 3,7 milljónum króna á ári endurgreiðir Tryggingastofnun 60% af sjúkrakostnaði umfram 25.900 krónur á þriggja mánaða tímabili. Einnig er tekið tillit til fjölda barna í hverri fjölskyldu þannig að viðmiðunartekjur eru lækkaðar um 260 þúsund krónur á ári fyrir hvert barn.


Nánari upplýsingar um breytingarnar veitir Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, í síma 545 8700.

Hjálagt:

Yfirlit_um breytingar á komugjöldum frá 1991 (Exel-skjal)
Kostnaður sjúklings vegna algengra heimsókna til sérfræðilæknis (Exel-skjal)




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
19. desember 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta