Hoppa yfir valmynd
19. desember 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samninga um stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og fulltrúar sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi undirrituðu í dag samstarfssamning um húsnæði nýs framhaldsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og fulltrúar sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi undirrituðu í dag samstarfssamning um húsnæði nýs framhaldsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem tekur til starfa í Grundarfirði næsta haust.

Í skólanum verða farnar nýjar leiðir við nám og kennslu því nemendum mun standa til boða að stunda fjölbreytt nám sem þó verður ekki allt kennt á staðnum heldur sem dreifnám. Skólinn er ætlaður nemendum á Snæfellsnesi sem hingað til hafa þurft að flytja að heiman til að komast í framhaldsskóla. Skólinn verður lítill á mælikvarða flestra framhaldsskóla á Íslandi því nemendafjöldi er áætlaður um 80 í upphafi og að hámarki 170 eftir 4 ár. Vegna smæðar skólans var talið æskilegt að í innra starfi verði upplýsingatækni nýtt til hins ítrasta með möguleikum dreifmenntunar svo námsframboð geti orðið fjölbreytt. Í skólanum verða ekki hefðbundnar kennslustofur en áhersla er lögð á opin rými og nokkur lítil herbergi sem ætluð eru til hópvinnu, einstaklingsvinnu og funda.

Óbeinn undirbúningur hefur átt sér stað í nokkur ár því í Grundarfirði hefur hópur nemenda stundað fjarnám á framhaldsskólastigi í til þess gerðri aðstöðu í bænum og með aðstoð leiðbeinanda. Þegar ákveðið var að byggja nýtt skólahúsnæði fyrir framhaldsskóla á Snæfellsnesi ákváðu menntamálaráðuneytið og sveitarfélögin í sameiningu að byggingin skyldi aðlöguð að þeirri námshögun sem stunduð yrði í skólahúsnæðinu.

Upplýsingar um skólann og skilgreiningar á hugtökum eins og dreifnámi eru á vef Menntagáttar: menntagatt.is undir „sérverkefni MRN".

Menntamálaráðuneytið, 19. desember 2003



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta