Undirritun samnings um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum
Nr. 158
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Í dag var undirritaður samningur Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um beitingu tiltekinna ákvæða samnings frá 29. maí 2000 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins og bókunar við hann frá 2001. Af Íslands hálfu undirritaði samninginn Kjartan Jóhannsson sendiherra Íslands í Brussel.
Þátttaka Íslands í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum gefur íslenskum lögregluyfirvöldum aukna möguleika á nánara samstarfi við lögregluyfirvöld í aðildarríkjum ESB að því er varðar rannsókn sakamála. Á því sviði hefur Ísland hagsmuna að gæta af nánara og skilvirkara samstarfi. Samningurinn mun einfalda samstarfið á þessu sviði frá því sem verið hefur milli Íslands og aðildarríkja ESB.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. desember 2003