Skipun í starf forstjóra Löggildingarstofunnar.
Skipun í starf forstjóra Löggildingarstofunnar
Viðskiptaráðherra hefur í dag skipað Tryggva Axelsson í starf forstjóra Löggildingarstofunnar til fimm ára, frá 1. janúar 2004.
Tryggvi er fæddur 5. október 1957 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1978, embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1986 og meistaragráðu í viðskiptafræði og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík með MBA gráðu árið 2002.
Tryggvi starfaði sem deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu frá árinu 1986 til 1992. Á því tímabili sinnti hann einkum verkefnum er lutu að undirbúningi löggjafar og setningu reglugerða á sviði fjármálaþjónustu og verslunar. Frá árinu 1992 til 1995 starfaði Tryggvi sem lögfræðingur hjá lagadeild EFTA í Genf og síðar í Brussel. Starf Tryggva hjá EFTA laut að undirbúningi og stofnsetningu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og verkefnum á sviði búseturéttar einstaklinga og staðfesturéttar fyrirtækja. Á árinu 1995 hóf Tryggvi störf í viðskiptaráðuneytinu að nýju og hefur frá þeim tíma lengst af starfað á skrifstofu samkeppnis- og neytendamála. Þar hefur Tryggvi haft umsjón með verkefnum á sviði almennra viðskiptamála þ.m.t. vöruöryggismál og neytendamál. Síðan í apríl á þessu ári hefur Tryggvi verið settur forstjóri Löggildingarstofunnar. Í störfum sínum fyrir viðskiptaráðuneytið hefur Tryggvi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar, Evrópska efnahagssvæðisins og komið að framkvæmd ýmissa alþjóðasamninga.
Eiginkona Tryggva er Ingibjörg Baldursdóttir, bókasafnsfræðingur. Þau eiga þrjú börn.
Reykjavík, 31. desember 2003.
Viðskiptaráðuneytið