Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2004 Utanríkisráðuneytið

Fundur hugsanlegra efnavopna í Írak

Utanríkisráðuneytið - Fréttatilkynning

Nr. 002

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sem starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í suðurhluta Íraks, við hlið dansks herliðs, fundu í gær verulegt magn af sprengjuvörpukúlum sem innihalda torkennilegan vökva. Kúlurnar höfðu verið faldar í uppbyggingu á vegarspotta. Breskir sérfræðingar vinna nú að nánari efna- og aldursgreiningu og gert er ráð fyrir niðurstöðum síðar í dag.

Sprengjusérfræðingarnir voru kallaðir á vettvang skammt frá borginni Basra við ána Tígrís til að gera óvirkar sprengjur sem þar voru sjáanlegar. Við frekari rannsókn þeirra fannst talsverður fjöldi sprengjuvörpukúlna og fyrstu mælingar bentu til að ekki væri um hefðbundnar sprengjuhleðslur að ræða. Mælingar danskra sprengjusérfræðinga staðfestu þetta og í framhaldinu voru breskir sérfræðingar kallaðir á vettvang til nákvæmari greiningar og þeim til stuðnings hefur einnig verið ákveðið að senda þangað hreyfanlega bandaríska efnarannsóknarstöð.

Frekari upplýsingar um þennan fund íslensku sprengjusérfræðinganna verða veittar um leið og þær berast frá Írak sennilega síðar í dag. Fjölmiðlum verða sendar ljósmyndir af nokkrum fyrrnefndum sprengjuvörpukúlum.

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 10. janúar 2004.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta