Styrkir ESB til verkefna á Evrópuári menntunar með iðkun íþrótta
Evrópusambandið hefur ákveðið að árið 2004 skuli vera Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta og tekur Ísland þátt í því verkefni.
Evrópusambandið hefur ákveðið að árið 2004 skuli vera Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta og tekur Ísland þátt í því verkefni.
Landsnefnd um Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta vekur athygli á, að í tengslum við markmið ársins ætlar Evrópusambandið að veita styrki til fjölþjóðlegra, innlendra, svæðisbundinna og staðbundinna verkefna til að stuðla að því að markmiðum Evrópuárs menntunar með iðkun íþrótta verði náð. En markmiðin eru m.a. að minna Evrópubúa – einkum ungt fólk á gildi íþrótta fyrir þroska einstaklingsins, félagslega hæfni og gott líkamsástand; efla tengsl menntunar og íþrótta í Evrópu, efla félagslega aðlögun þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti og efla hreyfanleika og alþjóðleg nemendaskipti, sérstaklega í fjölmenningarlegu umhverfi.
Umsóknarfrestur um styrki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til verkefna á Evrópuárinu er mánudagurinn 16. febrúar nk. Styrkupphæðin getur orðið mest 50% af styrkbærum heildarkostnaði við verkefni. Þeir sem geta sótt um styrki eru hópar, félög, samtök, mennta- og menningarstofnanir. Skilyrði fyrir styrkveitingu eru m.a. að verkefnið, sem sótt er um styrk til, sé unnið á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2004 og að það fullnægi þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur.
Vakin er athygli á að upplýsingar um Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta 2004 er að finna á vef Evrópuársins www.eyes-2004.info Þar er að finna allar nánari upplýsingar um Evrópuárið, þ.m.t. umsóknareyðublöð fyrir styrkina.
Nánari upplýsingar má nálgast hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, sem annast umsýslu með verkefninu eða á vef þess www.isisport.is
Menntamálaráðuneytið, 23. janúar 2004