Skipun nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi
Nr. 1/2004
Skipun nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi.
Viðskiptaráðherra hefur í dag skipað nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Nefndin skal m.a. taka fyrir hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun og með hvaða hætti skuli þróa reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. Hún skal hafa hliðsjón af reynslu síðustu ára og alþjóðlegum samanburði. Nefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. september nk.
Á síðustu árum hefur íslenskt viðskiptalíf tekið miklum breytingum. Fyrirtæki eru orðin öflugri og samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum og skila meiri hagnaði. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur vakið mikla athygli og flóra íslenskt viðskiptalífs er sífellt að verða fjölbreyttari.
Rót þessara breytinga á viðskiptalífinu má m.a. rekja til afnáms hafta á fjármálamarkaði, EES-samningsins, einkavæðingar ríkisfyrirtækja, skilvirkara regluverks og mótunar verðbréfamarkaðar.
Engum vafa er undirorpið að þessar breytingar hafa leitt til betri lífskjara þjóðarinnar. Aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa hins vegar leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hafa ýmis viðskipti á verðbréfamarkaði vakið upp spurningar um hvort stjórnunarhættir hlutafélaga séu með þeim hætti sem best gerist. Einnig hefur mikil umræða verið um þróun regluverks og opinbers eftirlits með viðskiptalífinu.
Í nefnd viðskiptaráðherra eiga sæti:
-
Gylfi Magnússon, dósent, formaður,
-
Guðrún Helga Brynleifsdóttir, hdl,
-
Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra,
-
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri,
-
Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra,
-
Stefán Svavarsson, dósent, og
- Þórdís Sigurðardóttir, lektor.
Reykjavík, 27. janúar 2004.