Viðhorf til jafnréttismála
Ágætu málþingsgestir.
Eins og fram hefur komið í setningu Irmu J. Erlingsdóttur er viðfangsefni þessa málþings að kynna og ræða niðurstöður könnunar sem gerð var af Gallup í september og nóvember sl. fyrir Rannsóknarstofnun í kvenna- og kynjafræðum um viðhorf fólks til jafnréttismála. Framkvæmd könnunarinnar var styrkt af ýmsum aðilum þar á meðal félagsmálaráðuneytinu sem ráðuneyti jafnréttismála. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þetta frumkvæði. Segja má að niðurstöðurnar komi á mjög hagstæðum tíma. Einmitt þessa dagana er verið að vinna að gerð þingsályktunartillögu um áætlun til næstu fjögurra ára til að ná fram jafnrétti kynjanna. Það er því hægt að hafa hliðsjón af niðurstöðum könnunarinnar við gerð framkvæmdaáætlunarinnar – en ég vík nánar að henni síðar.
Þótt það sé ekki hlutverk mitt hér á málþinginu að brjóta til mergjar niðurstöður könnunarinnar vil ég nota tækifærið og staldra við nokkur atriði.
Í könnuninni var spurt um afstöðu fólks til jafnréttis, hvort það telji t.d. að jafnrétti ríki á vinnustað þess. Einnig var spurt um stöðuhækkanir, launamál, umönnun barna í veikindum, fæðingarorlof, skiptingu starfa á heimilum og loks um afstöðu til vændis og þess að gera kaup á vændi refsivert. Niðurstöður svara við síðustu spurningunni er það eina úr könnuninni sem hefur verið kynnt opinberlega. Niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar en oft mótsagnakenndar. Fram kemur marktækur munur á skoðunum kvenna og karla í þessum efnum. Könnunin leiðir í ljós að karlar telja jafnrétti vera mun meira en konur. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að jafnréttisbaráttan þurfi í ríkari mæli að höfða meira til karla og glæða skilning þeirra á gildi jafnréttis kynjanna.
Þorgerður Þorvaldsdóttir mun hér á eftir kynna fyrstu niðurstöður úr orðræðugreiningu sinni á íslenskum fjölmiðlum meðan kosningabaráttan stóð yfir sl. vor. Ég vil ekki taka fram fyrir hendurnar á Þorgerði en mér er kunnugt um það að niðurstöður hennar eru mjög sláandi að því leytinu til að verulega hallar á konur. Þetta er umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn og stjórnendur fjölmiðla.
Stefanía Óskarsdóttir kynnir niðurstöður nefndar um efnahagsleg völd kvenna en sú nefnd starfar samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
Eins og ég gat um í upphafi er það hlutverk annarra að gera grein fyrir rannsóknum og könnunum hér á málþinginu. Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á náið samstarf á milli allra sem láta þessi mál til sín taka í þjóðfélaginu þannig að niðurstöðurnar færi okkur fram á veginn og okkur takist að skapa samfélag jafnréttis kynjanna. Þar vil ég sérstaklega benda á Jafnréttisstofu, Jafnréttisráð auk félagsmálaráðuneytisins.
Það er rúmlega hálft ár síðan ég tók við embætti félagsmálaráðherra. Eitt af því sem ég ákvað að takast á við er að koma á launajafnrétti kynjanna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé blettur á þjóðfélaginu að ekki hafi fyrir löngu tekist að vinna bug á þessu meinlega misrétti þrátt fyrir stuðning af lögum og reglugerðum. Því miður er raunveruleikinn sá að þrátt fyrir afdráttarlaus lög hafa stjórnmálamenn reynst vanmátta í þessum efnum. Ég ákvað því á fyrstu starfsdögum mínum sem félagsmálaráðherra að taka fyrst til í eigin garði og óskaði eftir því að staða þessara mála yrði skoðuð í ráðuneytinu. Markmiðið er að fara fyrst í saumana á málunum þar, en síðan að skoða þetta í stærra samhengi.
Félagsvísindamenn sem hafa rannsakað tölur um laun karla og kvenna á Íslandi hafa kvartað undan því að upplýsingar um þetta efni séu brotakenndar. Við í félagsmálaráðuneytinu erum því að kanna með hvaða hætti hægt sé að afla traustari gagna um þetta efni. Við höfum átt í viðræðum við fulltrúa fjármálaráðuneytisins og heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins. Hér koma ýmsir kostir til álita en ekki er hægt um vik nema að hlutaðeigandi sýni málinu skilning. Of snemmt er að spá um niðurstöðuna á þessu stigi en ég tel rétt að menn viti að verið er að vinna að málinu.
Enda þótt ég hafi lagt megin áherslu á að komast fyrir launamun kvenna og karla á innlendum vettvangi höfum við lagt áherslu á það sama á erlendum vettvangi og tekið þátt í samstarfsverkefnum bæði norrænum og evrópskum. Ég vil sérstaklega geta þess að um þessar mundir er unnið að samningu norrænnar samstarfsáætlunar á sviði vinnumála og vinnuumhverfismála sem á að gilda fyrir árin 2005 - 2008. Við þá vinnu hef ég lagt kapp á að sameiginlegt verkefni Norðurlanda verði að leita leiða til að eyða þeim mismun sem er á launum kvenna og karla. Samkvæmt þeim drögum sem nú liggja fyrir að áætluninni verður þetta gert að forgangsverkefni.
Í þessu sambandi má á það minna að Ísland gegnir forystuhlutverki í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Þegar er búið að ákveða fjölmarga viðburði á sviði jafnréttismála á árinu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þingi sem verður haldið dagana 10.-12. júní um starf kvennahreyfinga á Norðurlöndum. Hinn 24. september verður haldinn sérstakur hátíðafundur í tilefni af 30 ára afmæli norræns samstarfs á sviði jafnréttismála. Í tengslum við hátíðafundinn munu norrænir jafnréttis- og vinnumálaráðherrar halda sameiginlegan fund. Stungið hefur verið upp á því að umræðuefni fundarins verði launamunur kynjanna. Til viðbótar vil ég geta þess að Jafnréttisstofa gengst fyrir ráðstefnu 5. mars þar sem kynntar verða niðurstöður í evrópska samstarfsverkefninu: Menning, umgjörð og umhyggja. Fjölmargt annað er á dagskrá sem því miður er ekki tími til að tíunda hér.
Megin viðfangsefnið þessa dagana er samning þingsályktunartillögu um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Hér er um að ræða hina lögbundnu framkvæmdaáætlun sem félagsmálaráðherra ber að leggja fram eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar. Fyrstu drög að áætluninni eru samin af Jafnréttisstofu en lokafrágangur fer fram í félagsmálaráðuneytinu. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að leggja þingsályktunartillöguna fyrir Alþingi í næsta mánuði.
Of snemmt er að fara efnislega í einstaka þætti þingsályktunartillögunnar. Ég vil þó segja að ég hef hug á að breyta framsetningunni frá því sem verið hefur. Ég get ekki neitað því að mér hefur fundist skorta á að fyrri áætlanir væru nægilega markvissar. Í þeim hafa verið talin upp fjölmörg verkefni. Síðan hefur verið undir hælinn lagt hvort þau hafa verið unnin eða ekki. Þessu vil ég breyta. Ég tel skynsamlegra að verkefnin verði færri og um leið betur skilgreind. Ég hef þá trú að með þeim hætti verði auðveldara að fylgjast með því að þeim verði í raun hrundið í framkvæmd.
Tími minn hér leyfir ekki löng ræðuhöld um vinnu sem fram fer í félagsmálaráðuneytinu og stofnunum þess að jafnréttismálum. Ég hef hér að framan getið um helstu atriði sem unnið er að. Ég efast ekki um að á þessu málþingi eiga eftir að koma fram fróðlegar upplýsingar sem munu auka skilning okkar og þekkingu á stöðu jafnréttismála. Það er forsenda þess að við náum árangri á þessu sviði.