Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta
Umburðarbréf
Menntamálaráðuneytið vill með bréfi þessu vekja athygli á, að á grundvelli ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 291/2003/EB hafa Evrópuþingið og ráð Evrópusambandsins ákveðið að árið 2004 skuli vera „Evrópuár menntunar með iðkun íþrótta". Slagorð verkefnisins hér landi er „Hreyfing eflir hugann".
Meginmarkmið Evrópuárs menntunar með iðkun íþrótta er m.a. að minna Evrópubúa, einkum ungt fólk, á gildi íþrótta fyrir þroska einstaklingsins, félagslega hæfni og gott líkamsástand; að efla tengsl menntunar og íþrótta innan Evrópu; að efla hreyfanleika og alþjóðleg nemendaskipti, sérstaklega í fjölmenningarlegu umhverfi og að viðurkenna mikilvægt framlag sjálfboðaliða í evrópsku íþróttastarfi. Þessu markmiði verður leitast við að ná m.a. með upplýsinga- og kynningarherferðum og verkefnum um menntunargildi íþrótta og fjárstuðningi við fjölþjóðleg, innlend, svæðisbundin og staðbundin verkefni.
Menntamálaráðuneytið hefur skipað landsnefnd til að stýra verkefninu hér á landi. Í nefndinni eiga sæti: Ann-Helen Odberg, lektor KHÍ, Arngrímur Viðar Ásgeirsson, formaður Íþróttakennarafélags Íslands, Líney R. Halldórsdóttir, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands hefur verið falið að annast umsýslu verkefnisins. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá ÍSÍ og á vef þess www.isisport.is. Þá er ennfremur hægt að nálgast upplýsingar á vef Evrópuárs menntunar með iðkun íþrótta www.eyes-2004.info
Ráðuneytið væntir þess að árið verði sem flestum hvatning til menntunar með iðkun íþrótta og hvetur skóla, félög, stofnanir og aðra aðila til að nota tækifærið til að skipuleggja og/eða taka þátt í skipulögðum verkefnum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Guðmundur Árnason