Ný heilsugæslustöð
Ný heilsugæslustöð er tekin til starfa í Salahverfi í Kópavogi. Stöðin er einkarekin og sú fyrsta hérlendis þar sem reksturinn er boðinn út. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, tók stöðina formlega í notkun s.l. laugardag og flutti ávarp en auk hans tók til máls Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, en Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson bað húsinu og starfseminni blessunar.
Rekstur heilsugæslunnar var boðinn út í desember árið 2002, en eins og áður sagði var það í fyrsta skipti sem rekstur heilsugæslustöðvar er boðinn út hér á landi. Nýsir hf. og tveir læknar, Böðvar Örn Sigurjónsson og Haukur Valdimarsson, gerðu tilboð í reksturinn. Tilboðið hlaut hæstu einkunn af þeim 5 tilboðum sem bárust og var jafnframt lægst. Í kjölfarið var stofnað fyrirtækið Salus sem rekur heilsugæslustöðina og 6. maí undirritaði heilbrigðisráðuneytið samning við félagið um rekstur Heilsugæslunnar Salahverfi til ársloka 2011. Ráðuneytið tók húsnæði á leigu og lét félaginu það fullbúið í té.
Símaþjónusta tók til starfa á stöðinni um miðjan janúar en læknar og hjúkrunarfræðingar byrjuðu að taka á móti sjúklingum 20. janúar. Íbúar Linda-, Sala- og Vatnsendahverfa njóta forgangs við skráningu á heilsugæslustöðinni sem mun þjóna öðrum íbúum Kópavogs og nágrannasveitarfélaga eftir því sem kostur er. Verð fyrir þjónustuna er eins og á öðrum heilsugæslustöðvum. Salus hefur gert samning við Heilsugæsluna í Reykjavík og sér um skólahjúkrun í Salaskóla og Lindaskóla til vors en eftir það annast starfsfólk Heilsugæslunnar Salahverfi þá þjónustu. Þá hefur Salus gert samning við Rannsóknastofuna í Mjódd ehf. um að annast rannsóknir fyrir heilsugæsluna til næstu áramóta.
Heilsugæsla Salahverfis er á 2. hæð að Salavegi 2, Kópavogi. Opið er kl. 8-17 virka daga. Yfirlæknir er Haukur Valdimarsson og hjúkrunarforstjóri Hjördís Birgisdóttir.