Flugmálastjórn annast rekstur flugvallarins í Pristina
Þann 29. janúar sl. var undirritaður rammasamningur við Hr. Holkeri, yfirmann UNMIK í Kósóvo (United Nations Mission in Kosovo), um vottun og leyfisveitingar vegna rekstur flugvallarins í Pristina eftir 1. apríl 2004 sem Flugmálastjórn mun annast í eitt ár eða lengur eftir samkomulagi. Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem gerður er í íslenskri flugsögu og í flugsögu Evrópu svo vitað sé, en um er að ræða að Íslendingar taki flugvöllinn í "fóstur" vegna óleystrar framtíðarstöðu Kósóvó. Gefst hér því mikilvægt tækifæri til útrásar fyrir íslenska þekkingu á flugsamgöngum og rekstri flugvalla sem mun efla innviði í flugsamgöngum okkar í framtíðinni. Sameinuð þjóðirnar munu greiða allan kostnað sem af samningnum hlýst. Með þessu samkomulagi lýkur því hlutverki Íslensku friðargæslunnar á flugvellinum í Pristina eftir 1. apríl n.k. og Flugmálastjórn mun taka við í samræmi við samkomulagið. Gert er ráð fyrir því að þeir Kósóvó búar sem hafa verið þjálfaðir af Íslensku friðargæslunni taki við þeim störfum sem losna á flugvellinum.