Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkraflug til Vestmannaeyja

Fréttatilkynning nr. 7/2004

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins hafa samið við Flugfélag Vestmannaeyja um sjúkraflug til Vestmannaeyja og gildir samningurinn til ársloka 2005. Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd samningsins, en hann byggist á útboði sem var í september á liðnu ári.

Ákveðið var að bjóða út rekstur sjúkraflugs frá Vestmannaeyjasvæði á liðnu ári og miða við að flugvél væri staðsett í Vestmannaeyjum allt árið. Er samningurinn til sama tíma og aðrir samningar um sjúkraflug í landinu eða til ársloka 2005.

Samkvæmt samningnum er flugfélaginu gert að skipuleggja sjúkraflugsvaktir allan sólarhringinn og tryggja með því læknisþjónustu við Vestmannaeyinga. Sjúkraflugið hefur samkvæmt samningnum ótvíræðan forgang á hugsanlegt áætlunarflug og leiguflug flugrekanda.

 Flugrekanda er samkvæmt samningnum gert að tryggja að viðbragðstími vegna sjúkraflugs sé að hámarki 45 mínútur. Viðbragðstími er skilgreindur sem tíminn frá því að staðfest beiðni um sjúkraflug berst uns flugvél er tilbúin á flugvelli þar sem flytja á sjúkling með allan nauðsynlegan búnað og mannskap.

Grunnkostnaður við samninginn er 22 milljónir króna á ári, en auk þess eru greiddar 95 þúsund krónur fyrir hvert sjúkraflug sem stendur í a.m.k. tvær klukkustundir. Miðað við 42 sjúkraflug á ári yrði árlegur kostnaður við sjúkraflug til Vestmannaeyja um 26 milljónir króna á ári. Árleg greiðsla heilbrigðisráðuneytis vegna sjúkraflugs frá Vestmannaeyjum hefur verið um 12 milljónir króna en að auki hefur Tryggingastofnun ríkisins greitt um 88 þúsund krónur fyrir hvert flug.  Miðað við 42 sjúkraflug á ári hefur heildarkostnaður því verið um 16 milljónir króna á ári. Framlög til sjúkraflugsins eru þannig aukin umtalsvert.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituðu samninginn fyrir hönd ráðuneytis og stofnunar en Valgeir Arnórsson fyrir hönd Flugfélags Vestmannaeyja.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
5. febrúar 2004
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta