Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um vatnsveitur sveitarfélaga, sem er ætlað að koma í stað gildandi laga um sama efni, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða einkum að því að taka tillit til aukinnar fjölbreytni í rekstrarformi vatnsveitna og auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna. Jafnframt er stefnt að því að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveitna og sníða ýmsa agnúa af gildandi lögum. Loks hefur verið komið til móts við óskir vatnsveitna með því að gera skýrari ýmis ákvæði sem ætlað er að hindra eftir megni sóun neysluvatns.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Kveðið er á um að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða rekstrarform vatnsveitu í eigu sveitarfélagsins. Ætla má að á næstu árum muni fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga í auknum mæli taka þátt í samkeppnisrekstri á sviði raforkuframleiðslu og verður þeim þá skylt að halda þeim hluta starfsemi sinnar aðskildum frá þeim rekstri sem þau eiga einkarétt á, þar á meðal rekstri hitaveitu og vatnsveitu. Engu að síður kann að vera hagkvæmt að reka allar þessar veitur í einu félagi eða stofnun.

Mælt er fyrir um heimild sveitarstjórnar til að fela stofnun eða félagi, sem er að meiri hluta í eigu ríkis eða sveitarfélaga, réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum. Skylt verður að binda slíkt framsal skilyrðum og kvöðum sem nánar er kveðið á um í frumvarpinu.

Lagt er til að orðið „notkunargjald“ komi í stað „aukavatnsgjalds“ í gildandi lögum og að innheimta megi gjaldið af allri atvinnustarfsemi sem vatns getur notið. Einnig er lögð til sú breyting að heimilt verði að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stjórn vatnsveitu setji gjaldskrá, í stað sveitarstjórnar áður. Við gerð gjaldskrár ber að miða við að tekjur vatnsveitu standi undir rekstri rekstri hennar og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.

Í frumvarpinu er miðað við að daglegur rekstur vatnsveitu sé á ábyrgð stjórnar vatnsveitu í umboði sveitarstjórnar og er það í samræmi við gildandi framkvæmd. Þar sem svo háttar til að ekki hefur verið kosin sérstök stjórn vatnsveitu fer sveitarstjórn með ákvörðunarvald um málefni vatnsveitu.

Frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta