Uppbygging í Líberíu
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum ávarpaði á föstudag framlagaráðstefnu sem boðað var til 5.-6. febrúar sl. á vegum Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórnar Bandaríkjanna og Alþjóðabankans til að styrkja uppbyggingu í Líberíu.
Á ráðstefnunni kom fram að undanfarin 15 ár hefur Líbería verið stríðshrjáð land með þeim afleiðingum að stjórnskipan landsins hefur hrunið, hundruð þúsunda íbúa landsins hafa látið lífið í átökum og annar eins fjöldi hefur flúið heimahaga sína. Konur og börn hafa mátt þola skelfilegar afleiðingar stríðsátaka; kynferðisbrot, misþyrmingar og margvísleg mannréttindabrot. Börn allt niður í 9 ára aldur hafa neyðst til að ganga til liðs við uppreisnarherinn til þess að fá að halda lífi.
Í ágúst sl. var hrundið af stað uppbyggingarferli í Líberíu eftir að stríðsátökum þar lauk og bráðabirgðastjórn tók við stjórnartaumum. Sameinuðu þjóðirnar, bráðabirgðastjórn Líberíu og Alþjóðabankinn hafa gert ítarlega áætlun um uppbyggingarstarf á þessu ári og því næsta. Áætlunin var kynnt á ráðstefnunni. Fyrsta skrefið er að afvopna stríðandi fylkingar og koma á friði og öryggi, en áætlunin tekur jafnframt til allra þátta sem nauðsynlegir eru gangverki hverrar þjóðar, m.a. að byggja upp heilbrigðis- og menntakerfi, samgöngukerfi, reisa við efnahagslífið, koma á réttarríki með virku dóms- og viðurlagakerfi og halda lýðræðislegar kosningar. Sérstaklega verður hugað að börnum sem tekið hafa þátt í hernaði og unnið að því að veita þeim menntun og nauðsynlega hjálp til að öðlast sálarheill að nýju eftir hörmungar undanfarinna ára.
Aðildarríki S.þ. lýstu eindregnum stuðningi við áætlunina um uppbygginu í Líberíu á ráðstefnunni í dag og í gær og mörg þeirra hétu fjárframlögum, þ.á m. Ísland, en á ráðstefnunni tilkynnti fastafulltrúi um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita einni milljón króna á þessu ári til uppbyggingarstarfsins.
Skýrsla um uppbyggingaráform og önnur gögn, sem lögð var fram á ráðstefnunni er fáanleg í pdf-formi á neðangreindum slóðum:
http://www.un.org/Depts/dpko/missions/unmil/Needs_Assessment_for_Liberia.pdf
http://www.undg.org/content.cfm?id=777