LSH: Færri á biðlistum – fjölgun aðgerða
Landspítali – háskólasjúkrahús hefur sent frá sér bráðabirgðauppgjör vegna rekstrarins á liðnu ári. Þar kemur meðal annars fram að verulega fækkar á nær öllum biðlistum spítalans og er nú svo komið að á tilteknum sviðum er engin bið eftir aðgerðum. Anna Lilja Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem fjallar um starfsemina á liðnu ári í nýjasta hefti Stjórnunarupplýsinga skýrir þennan góða árangur meðal annars með því að nú sé árangurinn af sameiningu sérgreina að koma fram.
Biðlistar
Í stjórnunarupplýsingunum segir um biðlistana: “Fækkað hefur á nær öllum biðlistum eftir þjónustu spítalans á síðasta ári. Starfsemi hefur aukist á árinu enda er sameiningu sérgreina nær lokið á spítalanum. Meðan á sameiningu sérgreina stóð dró tímabundið úr starfseminni. Bið eftir skurðaðgerð hefur styst verulega á árinu. Sem dæmi þá biðu í janúar í fyrra 385 einstaklingar eftir aðgerð vegna vélindabakflæðis og þindarslits en nú bíða 220. Miðað við fjölda slíkra aðgerða á síðasta ári þá hefur biðin styst á þessu eina ári úr því að vera 24 mánuðir í það að vera 15 mánuðir. Eftir gerviliðaaðgerð á hné biðu 170 í janúar í fyrra en nú bíða 114 og biðin hefur styst frá því að vera 13 mánuðir í það að vera 8 mánuðir. Sömu sögu er að segja um gerviliðaaðgerð á mjöðm þar sem nú bíða 72 einstaklingar en 146 biðu fyrir ári. Biðin er nú um 3 mánuðir en var um 8 mánuðir í fyrra. Eftir hjartaþræðingu biðu 149 manns í fyrra en nú bíða 110 og aðeins einn einstaklingur bíður eftir kransæðavíkkun. Fjölgun hefur orðið á aðgerðum í nær öllum sérgreinum utan augnlækninga enda hefur bið eftir skurðaðgerð á augasteini lengst.” Vegna biðlistans eftir skurðaðgerðum á augasteinum er rétt að taka fram að Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, hefur aukið framlögin til augnaðgerða sérstaklega og er gert ráð fyrir 550 fleiri aðgerðum í ár en á liðnu ári vegna þessa.
Aðgerðum fjölgar
Aðgerðum hefur fjölgað umtalsvert á LSH og meðallegutíminn hefur auk þess styst. Aukin umsvif höfðu í för með sér nokkra fjölgun starfsmanna, en meginskýringin á fjölguninni er sú að nokkrir tugir starfsmanna Sjúkrahúsapóteksins færðust til við skipulagsbreytingu og urðu starfsmenn spítalans að forminu til þótt engin yrði breyting á starfseminni. Í greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur segir um aðgerðirnar: “Skurðaðgerðum fjölgaði á árinu um 2,9%, hjartaþræðingum um 16,0% og kransæðavíkkunum um 9,3%. Fæðingum fjölgaði um 2,7%, tæknifrjóvgunum um 5,7% og röntgenrannsóknum um 2,4%. Í takt við stefnu spítalans og þróunina í hinum vestræna heimi fer innlögnum á sólarhringsdeildir fækkandi og komum á dag- og göngudeildir fjölgandi. Legum á sólarhringsdeildir fækkar um 1,4% og legudögum um 5,8% á einu ári. Meðallegutími heldur áfram að styttast og fer úr 9,3 dögum í 8,8 daga á spítalanum í heild. Ef aðeins er litið til bráðadeilda þá styttist meðallegutíminn frá 5,3 dögum í 5,1 dag. Komum á dagdeildir fjölgaði um 5,2% á þessu ári og um 1,6% á göngudeildum. Vegna aukinnar starfsemi fjölgaði starfsmönnum spítalans á árinu. Í heildina fjölgaði starfsmönnum um 116 en um þriðjungur þeirrar aukningar skýrist með því að Sjúkrahúsapótekið ehf varð hluti af spítalanum og urðu starfsmenn þess starfsmenn spítalans. Aukin starfsemi skýrir að mestu þá tvo þriðju sem eftir eru.”