Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp vegna samkomulags við aldraða

pdf-taknFramsöguræða ráðherra...

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, mælti í dag á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingar á lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra en frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Í frumvarpinu er m.a. heimild til að greiða húsaleigu úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna leigu á hjúkrunarheimili sem byggt hefur verið fyrir aldraða af öðrum en ríkinu. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti skal vera að undangengnu útboði og telst ígildi stofnkostnaðar. Þá er gert ráð fyrir því að heimiluð séu framlög til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Ennfremur að þátttaka sveitarfélaga sé aldrei minni en 15% af stofnkostnaði og þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega sé eignarhluti þeirra í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Áfram er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geti samið um aðra kostnaðarskiptingu og eignarhlut. Þegar ríki og sveitarfélög leigja sameiginlega húsnæði fyrir hjúkrunarheimili er gert ráð fyrir að leigan skiptist í sömu hlutföllum og stofnkostnaður. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hætt verði að setja fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur öldrunarstofnana og að það verði gert í áföngum á tímabilinu 2004 til 2008. Þegar hafa verið stigin fyrstu skref í þá átt með því að lækka rekstrarlið Framkvæmdasjóðs aldraðra um 45 m.kr. í fjárlagafrumvarpi ársins 2004. Því eru enn í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 231,5 m.kr. til styrktar rekstri stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Frumvarpið er flutt í samræmi við samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við Landsamtök aldraðra haustið 2002 og með því hefur veigamestu þáttum samkomulagsins verið hrint í framkvæmd. Sérstökum starfshópi var falið að gera það en samkomulagið var í nokkrum liðum sem miðuðust við að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra næstu tvö til þrjú árin. Meðal þess sem orðið er að veruleika er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi var samið um hækkun bóta. Að því er varðar hækkanir bóta frá Tryggingastofnun ríkisins þá var fjárhæð tekjutryggingar og tekjutryggingarauka frá Tryggingastofnun ríkisins hækkuð 1. janúar 2003 með reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Frá sama tíma var ákvæðum almannatryggingalaga um tekjutengingu breytt þannig að skerðingarhlutfall tekna gagnvart tekjutryggingarauka lækkaði úr 67% í 45% og var með því verulega dregið úr áhrifum eigin tekna á bótagreiðslur. Tekjutrygging og tekjutryggingarauki hækkuðu um 2.000 kr. hvort um sig þann 1. janúar 2004 í samræmi við reglugerð sem sett var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í 22. nóvember 2002.

Í öðru lagi var samið um heimaþjónustu og heimahjúkrun. Að því er varðar heimaþjónustu við aldraða taldi starfshópurinn mikilvægt að efla heimaþjónustu við aldraða og að þjónusta heimahjúkrunar og heimaþjónusta sveitarfélaga yrði skipulögð þannig að hún yrði á einni hendi. Taldi starfshópurinn að samtvinnun þjónustunnar væri brýnust á höfuðborgarsvæðinu. Þessu var hrint í framkvæmd þann 18. nóvember 2003 þegar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gerði samkomulag við Reykjavíkurborg um samtvinnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Reykjavík.

Samkomulagið felur í sér að setja af stað tilraunaverkefni um sameiginlega stýringu heimaþjónustu í Reykjavík. Í þessu felst að Félagsþjónustan í Reykjavík og Miðgarður, Grafarvogi annars vegar og Miðstöð heimahjúkrunar í Reykjavík hins vegar veita einstaklingum þjónustu samkvæmt sameiginlegri þjónustuáætlun. Einstaklingur getur hvort heldur sem er leitað eftir heimaþjónustu hjá heilsugæslustöð, félagsþjónustunni í Reykjavík eða Miðgarði, Grafarvogi. Beiðni um þjónustu er komið til sérstakra matsmanna sem setja upp sameiginlega þjónustuáætlun sem getur falið í sér félagslega heimaþjónustu, heimahjúkrun eða hvort tveggja. Undirbúningurinn er hafinn en þessi tilraun með samtvinnaða þjónustu stendur í tvö ár frá 1. febrúar sl. og eru bundnar miklar vonir við árangurinn.

Kostnaður við tilraunareksturinn verður greiddur af fjárveitingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem samþykkt hefur verið í fjárlögum til að efla heimahjúkrun og samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu í samræmi við álit samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara.

Í þriðja lagi var samið um dagvistun og hvíldarinnlagnir. Að því er varðar stoðþjónustu í formi dagvistunar og hvíldarinnlagna þá var á árinu 2003 dagvistarrýmum verið fjölgað um 53, ótímabundnum rýmum fyrir hvíldarinnlagnir verið fjölgað um 8 og tímabundnum rýmum fyrir hvíldarinnlagnir á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 26. Með breytingu á almannatryggingalögum í maí 2002 var lengt það tímabil sem ellilífeyrisþegi getur verið á sjúkrahúsi án þess að missa lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Var markmið með lagabreytingunni að auðvelda hvíldarinnlagnir á hjúkrunarheimili og sjúkrahús og þar með koma til móts við þá kröfu að aldraðir geti verið sem lengst í heimahúsi og að hvíldarinnlagnir leiði ekki til þess að þeir missi bætur. Getur það verið öldruðum erfitt að missa bætur við hvíldarinnlögn þar sem ýmis fastur kostnaður fylgir því að halda úti heimili. Tók lagabreyting þessi gildi 1. janúar 2004.

Í fjórða lagi var samið um fjölgun hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum. Að því er varðar hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum þá lagði starfshópurinn til að húsnæði Vífilsstaðaspítala yrði tekið í notkun hið allra fyrsta. Því miður tókst ekki að hrinda þeirri áætlun í framkvæmd á árinu 2003 þar sem húsnæðið var ekki talið fullnægja ýmsum öryggiskröfum sem gerðar eru til húsnæðis hjúkrunarheimila. Þurfti að húsnæðið verulegra lagfæringa og tóku þær lengri tíma en áætlað var. Hjúkrunarheimili á Vífilsstöðum var tekið í notkun 30. janúar sl. og verða 50 hjúkrunarrými þar.

Í fimmta lagi var samið um almenna fjölgun hjúkrunarrýma og að því er varðar fjölgun hjúkrunarrýma á hjúkrunarheimilum hefur rýmum fjölgað á árinu 2003 um 89 en þá eru Vífilsstaðir taldir með og stefnt er að því fjölga rýmum um 113 á árinu 2004. Að auki er dvalarrýmum breytt í hjúkrunarrými.

Í sjötta lagi var samið um sveigjanleg starfslok. Að því er varðar tillögur samstarfsnefndarinnar um sveigjanleg starfslok og breytingar á almannatryggingalögum þannig að fólk hafi af því skýran ávinning að fresta töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og eigi þess kost er verið að koma á fót starfshópi til að gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar í þessu skyni. Formaður hans verður Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður og formaður Tryggingaráðs Tryggingastofnun ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta