Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2004 Matvælaráðuneytið

Ráðstefna um litlar vatnsaflsvirkjanir.

Stefna stjórnvalda gagnvart smávirkjunum

Ágætu ráðstefnugestir

 

Eins og flestum hér á þessari ráðstefnu mun vera kunnugt um var fyrsta vatnsorkuverið hér á landi reist árið 1904 í Hamarskotslæk við Hafnarfjörð. Í desember næstkomandi er því öld liðin frá því rafvæðing þjóðarinnar hófst. Þó svo að þetta vatnsorkuver hafi aðeins verið um 6 kílowött að afli var hér um að ræða risaskref í tækniþróun landsins eins og fljótlega kom á daginn. Fram að þessum tíma hafði þjóðin ekki öðlast trú á því að unnt væri að rafvæðast með nýtingu vatnsorkunnar og höfðu þó mætir menn freistað þess um nokkurt skeið að telja þjóðinni hughvarf í þeim efnum.

Alla nítjándu öldina urðu litlar framfarir í þróun orkumála þjóðarinnar, um 1800 þurfti þjóðin að hefja innflutning á erlendum orkugjöfum, kolum og olíu, þar eð skógur landsins hafði nálega alveg eyðst með taumlausri notkun til upphitunar húsnæðis og eldunar í aldanna rás.

Í kjölfar fyrstu vatnsaflsvirkjananna jókst fjöldi þeirra smátt og smátt. Hlutverk frumkvöðlanna er unnu að byggingu fyrstu rafstöðvanna var mikið og merkilegt, það var öðru fremur verksnilld þeirra sem sneri þjóðinni til trúar á rafmagnið. Tímabilið milli heimsstyrjaldanna, á árunum 1920-1940 hefur verið talið blómaskeið smávirkjana og fjöldi heimarafstöðva náði hámarki hér á landi í stríðslok um 1945 þegar rafvæðing landsins hófst að einhverju marki.

Með rafvæðingu landsbyggðarinnar dró smátt og smátt úr byggingu og rekstri nýrra einkarafstöðva. Mörgum þótti súrt í broti að geta ekki nýtt lengur og betur en raun varð á þær rafstöðvar er fyrir hendi voru, víða var það þó gert og fyrir 5 árum voru hér á landi skráðar 198 einkarafstöðvar í rekstri. Á síðustu 5-10 árum hefur orðið jákvæð þróun í uppbyggingu smávirkjana hér á landi þar sem dreifiveitur hafa í auknu mæli séð sér hag í því að kaupa orku frá litlum framleiðendum meðal annars til að draga úr töpum. Tækniþróun síðustu ára í stýringu rafstöðva og rafdreifikerfa hefur gert það kleift að unnt er að tengja nýjar smávirkjanir raforkunetinu og á hagkvæmari hátt en áður.

Þessi aukni áhugi á smáum vatnsaflsvirkjunum hefur verið áberandi víða erlendis undanfarinn áratug og jafnvel lengur. Ástæða þess er vitaskuld sú að um heim allan leita menn leiða til að auka hlut endunýjanlegra orkulinda vegna hinna geigvænlegu áhrifa er eldsneytisvirkjanir hafa á losun gróðurhúsalofttegunda.

Þróun og uppbygging smávirkjana á alþjóðavísu er því mikilvæg bæði hvað varðar nýtingu endurnýjanlegrar orku í ljósi skuldbindinga þjóða um losun gróðurhúsalofttegunda en ekki síður vegna þess að þessi þróun í nýtingu vatnsaflsins getur verið hagkvæm og mikilvæg fyrir einstaka framleiðendur. Tækniþróun síðustu ára hefur gert það kleift að litlir erfileikar eru á því að samtengja orkuframleiðsluna við almenna markaðinn hafi menn möguleika á að framleiða hagkvæma raforku frá heimarafstöðvum yfir ákveðnum aflstærðarmörkum, sem hér á landi hafa verið sett um 100 kW.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að smávirkjanir eru hlutfallslega mikilvægar þegar horft er til endurnýjanlegra orkulinda í Evrópu. Hjá Evrópusambandinu hafa smávirkjanir verið skilgreindar minni en 10 MW, en annars staðar eru þau mörk mun lægri. Árið 1995 var afl vatnsorkuvera í EB löndunum 92000 MW og þar af var afl í smávirkjunum 9200 MW eða um 10%.. Sambandið hefur sett sér það takmark að auka afl smávirkjana verlulega á næstu árum og auka framleiðslu þeirra um 47%. Þetta átak er áætlað að muni kosta um 14 miljarða dollara. Því má bæta við hér að einnig er gert ráð fyrir 10% aukningu í framleiðslu stærri vatnsorkuvera fram til 2010, eða úr 270 TWh 1995 upp í 300 TWh árið 2010. Frekari aukningu stærri vatnsaflsvirkjana telur Evrópusambandið ekki raunhæfan kost þar eð nú þegar hafa flest ríkin nýtt sér meginhluta hagkvæmra virkjunarkosta sinna.

Að mínu mati er nauðsynlegt að efla og þróa uppbyggingu smávirkjana hér á landi á næstu áratugum. Uppbygging smávirkjana er mikilvægur þáttur í þeirri stefnu stjórnvalda að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar á sjálfbæran og hagkvæman hátt í framtíðinni.

Að þessu höfum við unnið að á undanförnum árum með ýmsum hætti.

Í fyrsta lagi var á síðasta ári gefið út mikið kynningar- og leiðbeiningarrit um litlar vatnsaflsvirkjanir sem sérstök ráðgjafanefnd iðnaðarráðherra um byggingu smávirkjana vann að. Mikil þörf var á útgáfu þessa rits, að gerð þess komu margir aðilar og var afar vandað til útgáfu þess.

Í öðru lagi hefur Alþingi samþykkt að verja samtals 25 miljónum króna á 5 ára tímabili til athugana og áætlanagerðar vegna smávirkjana með bráðabirgðaákvæði laganna um niðurgreisðlu húshitunarkosnaðar. Hefur dyggilega verið unnið að þessum athugunum eins og væntanlega mun koma fram síðar á þessum fundi.

Í þriðja lagi hefur verið lögfest með ofangreindum lögum frá árinu 2002 um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar að framleiðendur raforku sem notuð er til húshitunar fái niðurgreiðslur frá ríkinu á sama hátt og ef þeir eru tengdir samveitukerfi landsins. Þetta er afar mikilvæg breyting til hagsbóta fyrir eigendur smávirkjana.

Í fjórða lagi voru á síðastliðnu ári samþykkt ný raforkulög, sem breyta verulega því umhverfi raforkumála er ríkt hefur hér á landi um 5 áratuga skeið. Þar eru gerðar verulegar breytingar er flestar eru til hagsbóta fyrir sjálfstæða framleiðendur raforku.

Raforulögin byggist á nýjum viðhorfum í orkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víðast hvar í heiminum á undanförnum árum. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Lögin grundvallast að verulegu leyti á tilskipun 96/92/EB um innri markað raforku en tilskipunin er hluti af EES-samningnum.

Um áratuga skeið var það viðtekin skoðun bæði erlendis og hérlendis að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum raforku og ríkjandi var einkaréttarstarfsemi í þessum geira. Á síðustu árum hefur auknu frjálsræði verið beitt í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er nú almennt talið að meiri árangur náist að jafnaði í vinnslu og sölu þar sem samkeppni ríkir en þar sem hefðbundinn einkaréttur er allsráðandi.

Þessi nýju lög munu opna möguleika fyrir smávirkjanir að selja orku til einstakra notenda á markaði um dreifinetið á næstu árum. Á síðustu vikum hefur sérstök nefnd unnið að því að útfæra hugmyndir um tilhögun flutningskerfis landsins og á hvern hátt jöfnuði verði við komið í dreifingu raforkunnar. Mun nefndin skila frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum innan skamms. Í tillögum nefndarinnar er einkum fernt sem er mikilvægt að nefna varðandi smávirkjanir.

Í fyrsta lagi er sama innmötunargjald fyrir alla raforku frá virkjunum inn á netið óháð stærð virkjana.

Í öðri lagi skiptir ekki máli hvort raforka er seld inn á dreifikerfi eða flutningskerfið, sama gjaldskrá mun gilda.

Í þriðja lagi þarf ekki að greiða innmötunargjald til netfyrirtækis fyrir eigin notkun raforku. Þetta hvetur eigendur smávirkjana til þess að nýta sem mest af orkunni í grennd við sitt heimili.

Í fjórða lagi verða virkjanir yfir 1 MW leyfisskyldar og einnig minni virkjanir sem selja á markaði.

Ekki er á þessari stundu tímabært að fjalla nánar um frekari útfærslu á þessum hugmyndum flutningsnefndarinnar, slíkt verður að bíða þar til Alþingi hefur tekið afstöðu til fyrirliggjandi tillagna.

Fimmta lið í stefnumörkun stjórnvalda vil ég nefna framtíðarsýn á uppbyggingu nýrra raforkuvera.

Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar 1997 framkvæmdaáætlun um umhverfismál, sem nefnd var Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta.

Þar segir m.a.

"Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana."

Í framhaldi af þessari samþykkt var rammaáætlun komið á laggirnar á árinu 1999 og hefur verið unnið merkt brautryðjendastarf með þessu verki.

Vinnu við 1. áfanga rammaáætlunarinnar er nú lokið og var niðurstöðum skilað í sérstakri skýrslu verkefnisstjórnar ásamt viðaukum til mín sem iðnaðarráðherra í lok nóvember. Þar eru metnar og flokkaðar 35 virkjunar-hugmyndir eftir umhverfisáhrifum annars vegar og heildar-hagnaði eða arðsemi þeirra hins vegar.

Í öðrum áfanga er ætlunin að skoða virkjunarkosti, sem ekki hafa verið jafn ítarlega rannsakaðir og flestir hinna 35 kosta í 1. áfanga. Þá er einnig gert ráð fyrir því að sumir kosta úr 1. áfanga verði rannsakaðir enn frekar og metnir að nýju síðar.

Varðandi smávirkjanir varð það niðurstaða í verkefnisstjórn rammaáætlunar að úttekt á áhrifum smávirkjana yrði tekin í 2. áfanga hennar. Vinna við 2. áfanga mun hefjast á þessu ári og því liggur enn ekki fyrir á hvern hátt vinnu við mat og flokkun smávirkjana verður háttað. Hins vegar er unnið að gerð vatnafarskorta fyrir landið í heild sem er ein mikilvægasta forsenda þess að unnt sé að skoða heildstætt orkugetu einstakra svæða og jafnvel einstakra virkjunarkosta, stórra og smárra. Ég tel eðlilegt að vinna við vatnafarskortlagningu verði hluti af vinnu rammaáætlunar. Nákvæmt vatnafarskort gerir mönnum kleift að sjá betur hugsanlega virkjunarstaði og líklegt rennsli til virkjunar, slíkt kort kemur ekki í stað vatnamælinga, en getur hins vegar stytt mjög þann mælitíma er þarf að vera fyrir hendi við ákvörðun um virkjun. Þetta á ekki síst við um smávirkjanir sem ekki geta borið háan undirbúningskostnað.

Á grundvelli hinna nýju vatnafarskorta verður unnt að gera heildstætt mat á orkugetu lítilla vatnsaflsvirkjana eins og miðað er við að unnið verði í tengslum við Rammaáætlun.

Hvað varðar annan stuðning stjórnvalda við smávirkjanir ber helst að nefna ráðgjöf varðandi forathuganir virkjunarkosta og þá einkum og sér í lagi mat á vatnsrennsli og vatnamælingar vegna hugsanlegra smávirkjana sem vatnamælingar Orkustofnunar hafa annast. Að slíkri ráðgjöf hefur verið unnið á s.l. 3-4 árum með góðum árangri og að mínu mati á að halda áfram á þeirri braut.

Ágæti ráðstefnugestir.

Ég hef hér að framan rakið mikilvægi þess að við nýtum alla hagkvæma og sjálfbæra virkjunarkosti landsins og þá ekki síst smávirkjanir, sem tæknin hefur gert mögulegt að nýta á samkeppnishæfan hátt við hinar stærri á síðustu árum.

Ég hef rakið hér hvað stjórnvöld hafa gert til að skapa smávirkjunarkostum sem jöfnust skilyrði samanborið við hina stærri í væntanlegri samkeppni á næstu árum. Einnig finnst mér mikilvægt að minnast á það að við gerð raforkulaga hefur verið haft í huga að raforkuframleiðsla í smávirkjunum hér á landi mun aukast á næstu árum.

Margt hefur áunnist á síðustu 3-4 árum í málefnum smávirkjana og við erum á réttri leið en vafalaust getum við gert enn betur. Um það fjallar þessi ráðstefna meðal annars og vonast ég til að við fáum hér gott veganesti til næstu framtíðarskrefa í uppbyggingu smávirkjana.

Ég þakka áheyrnina.

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta