Umhverfismerkingar ræddar í FAO
Fiskveiðinefnd FAO ákvað í febrúar 2003 að kalla saman sérfræðinganefnd til að gera tillögu um leiðbeinandi reglur fyrir umhverfismerkingar á sjávarafurðum. Nefndin vann tillögur sínar í október og nóvember 2003. Á fundi undirnefndar fiskveiðinefndar FAO um viðskipti með fisk og fiskafurðir í Bremen í sl. viku var síðan fjallað um umhverfismerkingar á fiskafurðum. Þar var skýrsla sérfræðinganefndarinnar kynnt af formanni hennar, Dr. Kristjáni Þórarinssyni. Skýrslan hlaut góðar viðtökur á fundinum og var samþykkt að næsta haust verði haldinn sérstakur fundur allra aðildarríkja FAO til að fjalla nánar um tillögur nefndarinnar. Ef samkomulag næst á þeim fundi má vænta þess að á fundi fiskveiðinefndar FAO í febrúar 2005 verði samþykktar leiðbeinandi reglur um notkun og meðferð umhverfismerkja á sjávarafurðum. Í þessu samhengi nær hugtakið umhverfismerki (e. eco-label) til merkis á
t.d. umbúðum á sjávarafurðum, sem staðfestir að fiskurinn í tilteknum pakka sé veiddur úr stofni sem er nýttur á sjálfbæran hátt. Undanfarin ár hefur verið allnokkur umræða um s.k. umhverfismerkingar á sjávarafurðum, tilgang, þörf og hugsanlega skipulagningu. Íslensk stjórnvöld hafa fylgst með þróun málsins og tekið þátt í umræðum, m.a. innan Norðurlandasamstarfisins. Á þeim vettvangi var samstaða um að það fyrirkomulag sem er til staðar á markaðnum væri af mörgum ástæðum óheppilegt, ekki síst ef litið var til uppbyggingar vottunarferlisins. Innan Norræna samstarfsins var samkomulag um að nauðsynlegt sé að um merki af þessu tagi gildi reglur sem tryggi að þau verði ekki misnotuð, leiði neytendur ekki á villigötur og standi fyrir það sem þau eiga að standa fyrir. Ennfremur ættu meginreglurnar að vera settar af opinberum aðilum og að um valkvæða þátttöku sé að ræða. Þar sem um er að ræða alþjóðlega starfsemi var talið best að meginreglur yrðu settar af alþjóðlegum aðila eins og FAO, og hafa Norðurlöndin unnið að því að koma málinu á dagskrá á
þeim vettvangi, m.a. með því að styðja sérstakan fund hjá FAO um umhverfismerkingar árið 1998. Þar náðist ekki niðurstaða, m.a. vegna andstöðu þróunarríkja sem óttuðust að slík merki gætu orðið að viðskiptahindrunum. Í framhaldinu var hafin á Norrænum vettvangi vinna við að gera drög að slíku kerfi valfrjálsra merkinga undir stjórn Dr. Kristjáns Þórarinssonar og var skýrsla með tillögum þar að lútandi kynnt og rædd á fundi sjávarútvegsráðherra Norðurlandanna í júní 2000. Ráðherrarnir tóku undir niðurstöður skýrsluhöfunda og fólu Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra
að kynna skýrsluna sem víðast. Síðan hefur hún verði kynnt m.a. í ESB og WTO og á ráðstefnu í tengslum við sjávarútgegssýninguna í Boston og var einnig lögð fram á fundi fiskveiðinefndar FAO árið eftir. Vinna áðurnefndrar sérfræðinganefndar FAO um umhverfismerkingar byggði m.a. á þessari skýrslu.
Sjávarútvegsráðuneytið, 17. febrúar 2004.