Alþjóðlegur samningurinn um þrávirk lífræn efni tekur gildi
Í gær fullgilti fimmtugasta ríkið alþjóðlegan samning um þrávirk lífræn efni og þar með er ljóst að samningurinn mun ganga gildi 17. maí n.k. Þessi áfangi er sérstaklega ánægjulegur fyrir Ísland þar sem íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að gera tillögu um samninginn á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 og hafa unnið að því síðan að skapa alþjóðlega samstöðu um málið. Þess má geta að mikilvæg skref í undirbúningi samningsins voru tekin á alþjóðlegum fundi um varnir gegn mengun hafsins sem íslenska ríkisstjórnin bauð til í mars 1995.
Samningurinn heitir á ensku "Stockholm Convention on Persistent Organic Pollutants" og er vistaður hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNEP. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd árið í maí 2001 ásamt fulltrúum 90 ríkja heims en Ísland fullgilti samninginn í maí 2002 fyrst Norðurlanda.
Markmiðið samningsins er að vernda heilsu manna og umhverfið gegn þrávirkum lífrænum efnum. Samningurinn tekur til 12 manngerðra efnasambanda sem sýnt er að geta valdið mjög alvarlegum áhrifum í náttúrinnni ekki síst á heilsufar fólks. Farið var að nota þrávirk lífræn efni um og eftir seinni heimsstyrjöldina og hafa þau tilhneigingu til að flytjast um langan veg frá uppruna sínum og safnast upp á kaldari svæðum. Efnin geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýrarríkið í heild sinni, en ekki hvað síst kaldari svæðum því efnin safnast fyrir í fitulagi dýranna. Áhrifin magnast þegar ofar dregur í fæðukeðjunni svo sem hjá sjávarspendýrum og ísbjörnum. Einna alvarlegast er talið að efnin geta líkt eftir hormónum og valdið með því verulegu raski á hormónabúskap lífveranna. Þá geta sum þessara efna valdið krabbameini eða örvað vöxt þess.
Hlutfall þrávirkra lífrænna efna sem mæld hafa verið hér í umhverfinu eru vel undir hættumörkum og er styrkur þessara efna í íslensku sjávarfangi með því lægsta sem gerist á Norð-Austur Atlantshafi.
Gildistaka samningsins er íslenskum stjórnvöldum fagnaðarefni og vekur upp vonir um að verulega muni á næstu árum draga úr losun lífrænna þrávirkra efna sem borist hafa langar leiðir og sest upp í lífríki hafsins m.a. á norðurslóðum. Gildistaka samningsins er mjög mikilvægur áfangi í baráttu gegn mengun hafsins.
Fréttatilkynning nr. 3/2004
Umhverfisráðuneytið