Málþing um stöðu og framtíð tónlistarmenntunar
Þann 21. febrúar næstkomandi verður haldið í Reykjavík málþing um stöðu og framtíð tónlistarmenntunar í landinu. Yfirskrift málþingsins er: Tónlistarmenntun á Íslandi á 21. öld – hvert stefnir?
Þann 21. febrúar næstkomandi verður haldið í Reykjavík málþing um stöðu og framtíð tónlistarmenntunar í landinu. Yfirskrift málþingsins er: Tónlistarmenntun á Íslandi á 21. öld – hvert stefnir?
Til málþingsins er boðað að frumkvæði Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar í samvinnu við Reykjavíkurborg, menntamálaráðuneyti, Samtök tónlistarskóla í Reykjavík, Samtök tónlistarskólastjóra, Listaháskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Félag Íslenskra hljómlistarmanna, Félag tónlistarskólakennara, Tónmenntakennarafélag Íslands og samtök tónlistarnemenda.
Nánar tiltekið verður málþingið haldið laugardaginn 21. febrúar kl. 13:30–17 í nýjum þingsal Kennaraháskóla Íslands. Allir sem áhuga hafa á efni þess eru velkomnir. Til að auðvelda framkvæmdina eru gestir vinsamlega beðnir að skrá sig í síma 568 5828 eða
Á málþinginu verður, eins og heiti þess gefur til kynna, fjallað um tónlistarmenntun í víðu samhengi. Erindi flytja Hjálmar H. Ragnarsson, tónskáld og rektor Listaháskóla Íslands, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanóleikari og stjórnandi Reykholtshátíðar, Magnús Árni Skúlason, rekstrarhagfræðingur, Haukur F. Hannesson tónlistarkennari og listrekstrarfræðingur, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir félagsfræðingur, Jón Torfi Jónasson, prófessor HÍ og Silja Björk Baldursdóttir MA-nemi í uppeldis- og menntunarfræði. Fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg og fulltrúar kennara og nemenda munu einnig ávarpa þingið.
Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar er 40 ára um þessar mundir. Í umræðum innan skólans um það hvernig halda skyldi upp á þessi tímamót kom í ljós mikill áhugi á því að ráðast í verkefni sem höfðaði til allra tónlistarskólanna, nemenda þeirra og aðila sem með einum eða öðrum hætti tengjast tónlistarmenntun í landinu. Myndaður var undirbúningshópur með þátttöku áhugafólks innan og utan skólans. Heiti málþingsins og ramminn um efni þess og megintilhögun varð til í þessum hópi. – Undirtektir allra sem leitað hefur verið til varðandi þátttöku og framlag til dagskrárinnar hafa verið mjög góðar.
Heiti málþingsins vísar til framtíðar, en til að glöggva sýn fram á veginn er að mati undirbúningshópsins nauðsynlegt að taka mið af núverandi stöðu tónlistarmenntunar í landinu og þróuninni allar götur frá því lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla tóku gildi. Þau voru sem kunnugt er sett á Alþingi árið 1963 að frumkvæði Gylfa Þ. Gíslasonar, þáverandi menntamálaráðherra. Lögin hafa verið og eru enn sá grunnur sem starfsemi allra tónlistarskóla í landinu hvílir á. – Auk þess að fyrirlesarar og þátttakendur líti í sameiningu yfir farinn veg á gildistíma laganna og íhugi hvert stefnir er það ósk undirbúninghópsins og Tónskólans að með málþinginu takist að glæða almennt skilning á gildi tónlistarmenntunar og bæta samstarf milli þeirra aðila sem starfa að tónlistarmenntun á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu.
Enda þótt málþingið verði ekki formlegur vettvangur til ályktana, er þess að vænta að miðlun fjölþættra upplýsinga og það eitt að leiða saman fólk með áhuga, þekkingu og ábyrgð á málasviðinu geti leitt til víðtækari samstöðu um markmið og leiðir í tónlistarmenntun á næstu árum.
Menntamálaráðuneytið, 19. febrúar 2004