Athugasemd frá félagsmálaráðuneyti við frétt sem birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, undir fyrirsögninni „Ráðuneyti hunsa samning um kostnaðarmat“ er vitnað til umræðu á borgarstjórnarfundi, sem haldinn var 19. febrúar, um kostnaðarmat ráðuneyta á lagafrumvörpum og reglugerðum. Í fréttinni er haft eftir borgarstjóra Reykjavíkurborgar að misbrestur sé á því að kostnaðarmat fylgi reglugerðum og lagafrumvörpum frá félagsmálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti þrátt fyrir samkomulag sem gert var þann 4. desember 2002 milli ríkis og sveitarfélaga.
Félagsmálaráðuneytið vill vegna þessara ummæla taka undir mikilvægi þess að áður en sett eru ný lög eða reglugerðir fari fram mat á því hvaða áhrif slíkt hafi á útgjöld sveitarfélaga.
Ráðuneytið vill jafnframt að fram komi að frá því að umrætt samkomulag tók gildi hefur engin athugasemd borist ráðuneytinu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða einstökum sveitarfélögum við framkvæmd mats á kostnaðaráhrifum reglugerða sem ráðuneytið setur gagnvart sveitarfélögunum. Sama máli gegnir um lagafrumvörp sem félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Ráðuneytið telur sig hafa farið í einu og öllu eftir því samkomulagi sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga og telur því sérstaka ástæðu til að vísa fyrirsögn fréttarinnar á bug.