Umboð Flóttamannaráðs framlengt um eitt ár
Ríkisstjórnin hefur fallist á tillögu félagsmálaráðherra um að framlengja umboð Flóttamannaráðs um eitt ár. Hlutverk ráðsins er að leggja til við ríkisstjórnina heildarstefnu og skipulag er varðar móttöku á flóttamönnum.
Í framhaldi samþykkt ríkisstjórnarinnar hefur félagsmálaráðherra framlengt umboð Flóttamannaráðs um eitt ár frá 17. desember að telja. Flóttamannaráð hefur frá árinu 1995 verið skipað til fjögurra ára í senn samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Að þessu sinni hefur verið ákveðið að framlengja umboð ráðsins. Ástæðan er sú að málefni innflytjenda hafa verið til athugunar í félagsmálaráðuneytinu. Í nóvember sl. var skipaði félagsmálaráðherra starfshóp til að fjalla um þjónustu við innflytjendur á Íslandi, skipulag hennar og fyrirkomulag. Eitt af megin verkefnum hópsins er að móta tillögur með hvað hætti sé unnt að auka samvinnu og samhæfa þjónustu sem í dag er innt af hendi hjá þeim aðilum er helst hafa með málaflokk innflytjenda að gera. Skilgreina og forgangsraða þeim þáttum þjónustu sem æskilegt er að í boði séu hjá þjónustuaðilum og koma með tillögur um hugsanlega verkskiptingu aðila í málaflokknum. Ennfremur að móta tillögur um hvar hugsanleg þörf er á að auka við þjónustu við útlendinga búsetta á Íslandi og hvernig henni verður best fyrir komið. Í erindisbréfi hópsins er lagt til að hann skili af sér skýrslu með tillögum til félagsmálaráðherra eigi síðar en 1. febrúar 2004. Í framhaldi af skýrslu starfshópsins er gert ráð fyrir að tekin verði afstaða til skipulag mála sem snerta innflytjendur og er þar með talin móttaka flóttamanna sem Flóttamannaráð hefur haft umsjón með.
Samkvæmt framangreindu eiga eftirtaldir sæti í ráðinu:
Frá félagsmálaráðuneyti:
Árni Gunnarsson, formaður,
varamaður: Gunnar Bragi Sveinsson.
Frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti:
Kristrún Kristindóttir, lögfræðingur,
varamaður: Ólafur Walter Stefánsson, fyrrverandi skrifstofustjóri.
Frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti:
Hrafn Pálsson, deildarstjóri,
varamaður: Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur.
Frá menntamálaráðuneyti:
Erna Árnadóttir, deildarsérfræðingur,
varamaður: Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri.
Frá utanríkisráðuneyti:
Haukur Ólafsson, sendifulltrúi,
varamaður: Skafti Jónsson, sendiráðsritari.
Áheyrnarfulltrúi frá Rauðakrossi Íslands:
Hólmfríður Gísladóttir, deildarstjóri,
varamaður: Sigríður Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri.