Fréttapistill vikunnar 21. - 27. febrúar
Ráðstefna um verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, sagðist binda miklar vonir við þá stefnumótun í heilbrigðisþjónustunni til framtíðar sem nú fer fram á vettvangi þriggja nefnda sem skipaðar voru á liðnu ári. Þetta sagði hann á ráðstefnu forstöðumanna sjúkrahúsa sem haldin var í Bláa lóninu vikunni. Ráðherra fjallaði m.a. um hugmynd sína um yfirfærslu heilsugæslunnar og öldrunarmála til sveitarfélaganna og sagði m.a.: "Hér er um að ræða dæmigerða nærþjónustu í þeim skilningi að þjónustuna á að skipuleggja í sem nánust samstarfi og samvinnu við íbúa viðkomandi sveitarfélags. Ákvarðanir um þjónustustig, eða útfærsla þjónustunnar, verður þá í höndum manna sem þekkja betur staðbundnar aðstæður en hin miðstýrða hönd heilbrigðisyfirvalda. Staðbundnar aðstæður kalla vafalaust á mismunandi lausnir og útfærslu og ég sé fyrir mér að heilbrigðisþjónustan gæti orðið bæði sveigjanlegri og öflugri undir stjórn þeirra sem eru öllum hnútum kunnugir á sveitastjórnarstiginu."
Ávarp ráðherra... (pdf-skjal)
Aðskilnaður kaupenda og seljenda
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, gerði í fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni grein fyrir hvernig því miðar að skilja að kaupendur og seljendur í heilbrigðisþjónustunni, en Ásta Möller, varaþingmaður sjálfstæðismanna, spurðist fyrir um málið í munnlegum fyrirspurnartíma.
Svar ráðherra... (pdf-skjal)
Kostnaðarhlutdeild einstaklinga
Hlutdeild sjúklinga í sérfræðilækniskostnaði hefur að meðaltali farið lækkandi á undanförnum árum samkvæmt upplýsingum úr staðtölu Tryggingastofnunar ríkisins. Fram kom hjá ráðherra í umræðum sem spunnust um hlutdeild einstaklinga í kostnaði við heimsóknir til lækna að þess hefði verið gætt sérstaklega þegar gjöldum hefur verið breytt að taka tillit til þeirra þjóðfélagshópa sem minna hafa handa á milli. Þá kom fram hjá ráðherra að sérstakar endurgreiðslureglur hefðu verið rýmkaðar, síðast um áramótin, af sömu ástæðum. Það var Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður jafnaðarmanna, sem spurðist fyrir um kostnaðarhlutdeildina á Alþingi.
Svar ráðherra... (pdf-skjal)
Heilsugæsla ungmenna
Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki, spurði Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra um heilsugæslu í framhaldsskólum í munnlegum fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni. Ráðherra velti upp þeim möguleika að heilsugæslustöðvar nálguðust t.d. framhaldsskólanema innan veggja skólans og sagði að vafalaust myndi Miðstöð heilsuverndar barna íhuga möguleika af þessu tagi, en miðstöðin hefur á hendi faglega forystu í heilsuvernd barna og ungmenn innan átján ára aldurs. Sagði ráðherra m.a. þetta um starfsemi miðstöðvarinnar: "Undanfarna mánuði hefur verið unnið að mótun stefnu fyrir Miðstöð heilsuverndar barna. Þeirri vinnu er nýlega lokið og hefur stefnan verið samþykkt formlega af Heilsugæslunni. Meðal helstu nýmæla er að Miðstöð heilsuverndar barna verður falin fagleg forysta um heilsuvernd barna allt að 18 ára aldri. Annað mikilvægt atriði er að Miðstöðinni verður ætlað hlutverk á landsvísu. Hún mun styðja við landsbyggðina um málefni sem snerta heilsuvernd barna yngri en 18 ára og er ætlunin að þjónusta hennar standi til boða heilsugæslunni um allt land eftir því sem heilsugæslan úti á landi kærir sig um og fært er."
Svar ráðherra... (pdf-skjal)
Greinileg þörf
Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, tók að sér það tímabundna verkefni á liðnu ári að gegna eins konar umboðsmannsstarfi sjúklinga á Landspítalanum, móta starfið og gera tillögur um framhaldið eftir að hún léti af störfum. Starf af þessu tagi hefur ekki verið á sjúkrahúsinu en fulltrúa sjúklinga var ætlað að veita sjúklingum og aðstandendum þeirra stuðning, koma málefnum þeirra á framfæri og beina umkvörtunum þeirra í réttan farveg til úrlausnar. Ingibjörg skilaði framkvæmdastjórn greinargerð um tímabil sitt sem fulltrúi sjúklinga. Þar kemur meðal annars fram að rúmlega 250 einstaklingar höfðu samband við fulltrúa sjúklinga frá 1. maí 2003 til 1. febrúar 2004 "..með stór og smá vandamál og fjölbreytt erindi." Þetta voru sjúklingar, aðstandendur, starfsfólk og fulltrúar sjúklingafélaga. Haft var samband til að kvarta yfir ýmsu sem þótti miður fara í þjónustu sjúkrahússins en einnig til þess að koma þökkum á framfæri. Á heimasíðu Landspítalans segir meðal annars um niðurstöðu Ingibjargar: "Nokkuð var um að starfsmenn sjúkrahússins leituðu til fulltrúa sjúklinga vegna vanda sem sjúklingar þeirra glímdu við. Í greinargerðinni bendir Ingibjörg Pálmadóttir á ýmislegt sem gera mætti í þágu sjúklinga og setur fram tillögu að starfslýsingu fyrir fulltrúa sjúklinga á LSH. Greinargerðin hefur verið rædd í framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd. Ákveðið hefur verið að fylgja eftir nokkrum atriðum sem bent er á í henni:
- Viðmót við sjúklinga verði bætt.
- Atvikaskráning og úrvinnsla verði bætt.
- Skipulag útskriftarsjúklinga verði bætt.
- Úrbætur verði gerðar varðandi upplýsingar til sjúklinga."
Reglur um lyfjakynningar
Nýjar reglur um það hvernig standa á að lyfjakynningum á Landspítalanum taka gildi 1. mars og taka þær til kynninga á spítalanum og til starfsmanna spítalans utan hans. Reglurnar eru settar með hliðsjón af leiðbeinandi reglum stýrihóps sem starfar á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og samnings milli Læknafélags Íslands og Samtaka verslunarinnar um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja. Í reglunum segir m.a.: "Áður en kynning er haldin skal kynnir afhenda, í móttöku á fyrstu hæð á Eiríksstöðum, eða hjá vaktmönnum á 1. hæð í Fossvogi, tilkynningu um fyrirhugaða kynningu, hvað kynna skal, hvaða starfsmönnum eða hópum er boðið, staðsetningu og tímasetningu og nafn yfirlæknis sem haft hefur verið samráð við. Skal kynni þá afhent merki þar sem skráður er áætlaður tími fyrir kynninguna. Skal kynnir staðfesta móttöku merkisins skriflega og þá jafnframt undirrita yfirlýsingu þar sem hann skuldbindur sig til að gæta þagmælsku varðandi allar persónuupplýsingar er hann kann að verða áskynja um í starfi sínu innan stofnunarinnar. Kynnir skal bera merkið á sjáanlegan máta meðan hann dvelur á stofnuninni vegna starfa sinna og skila því þegar að kynningu lokinni. Móttökuritari heldur skrá yfir kynningar og hvenær merki er afhent og því skilað."
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
27. febrúar 2004