Hoppa yfir valmynd
5. mars 2004 Matvælaráðuneytið

Nýsköpunarþing

Ágætu gestir á Nýsköpunarþingi

Rannís og Útflutningsráð veittu sín fyrstu nýsköpunarverðlaun árið 1994 þegar Vaki hf. fékk þau. Á þeim tíu árum sem liðin eru hafa nokkur framúrskarandi fyrirtæki fengið nýsköpunarverðlaunin. Sem dæmi má nefna fyrirtæki eins og Hugvit, Íslenska erfðagreiningu, Flögu, Bláa lónið, Fiskeldi Eyjafjarðar og Stofnfisk.

Rannís og Útflutningsráð hafa leitað tilnefninga um verðug fyrirtæki bæði meðal starfsmanna sinna en einnig til utanaðkomandi. Að þessu sinni voru tilnefningar óvenju margar og mikið starf fyrir nefnd um Nýsköpunarverðlaun að komast að niðurstöðu.

Við valið eru notaðir sjö þættir sem fyrirtækin fá einkunn fyrir. Litið er til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og árangur á markaði og hvort fyrirtækið hafi náð sölusamningum. Metnir eru möguleikarnir á hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

Það fyrirtæki sem hlýtur Nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráð fékk háa einkunn fyrir öll viðmiðin. Um er að ræða sprotafyrirtæki sem var stofnað árið 1991 og hafði frumkvöðull þess fengið styrk frá þáverandi Rannsóknaráði ríkisins sem skipti miklu máli fyrir fyrstu skrefin. Styrkurinn var til að þróa bóluefni í formi nefúða. Fyrirtækið hefur fengið fleiri styrki síðan en mestu skiptir að nú hafa fjárfestar séð sér hag í að kaupa hlut. Öll hlutabréf í fyrirtækinu eru í eigu innlendra aðila og í síðasta mánuði jók fyrirtækið hlutafé sitt verulega á innlendum markaði.

Verðlaunin að þessu sinni hlýtur fyrirtækið Lyfjaþróun hf. en stofnandi þess og framkvæmdastjóri er dr. Sveinbjörn Gizurarson. Var það einróma niðurstaða nefndar Rannís og Útflutningsráðs.

Lyfjaþróun hf. hefur aflað fjögurra alþjóðlegara einkaleyfa og er fjöldi umsókna um einkaleyfi í undirbúningi. Lyfjaþróun hefur gert samstarfssamninga við erlenda aðila og má nefna að svo snemma sem árið 1992 gerði fyrirtækið samstarfssamningi við Statens Seruminstitut í Danmörku. Þá hefur fyrirtækið gert tvo stóra samninga við lyfjarisann Wyeth í Bandaríknunum og við Bespak fyrir rúmu ári síðan.

Hjá fyrirtækinu starfa 32 starfsmenn þar af eru 9 með doktorsgráðu. Fyrirtækið hefur möguleika á að þróa lyf frá hugmynd að öðru stigi prófana en lyf fara í gegnum þrjú ítarleg prófunarstig áður en þau eru skráð á lyfsöluskrá.

Helstu verkefni fyrirtækisins eru þróun á nefúða sem bráðameðferð og bólusetningar í formi nefúða.

Vil ég biðja dr. Sveinbjörn Gizurarson um að koma hingað og taka á móti Nýsköpunarverðlaunum Rannís og Útflutningsráðs fyrir árið 2004.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta