Hoppa yfir valmynd
10. mars 2004 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Ólafur Egilsson, sendiherra, afhendir frú Megawati Soekarnoputri, forseta Indónesíu, trúnaðarbréf sitt
Indónesía

Hinn 10. mars 2004, afhenti Ólafur Egilsson, sendiherra, forseta Indónesíu, frú Megawati Soekarnoputri, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Indónesíu með aðsetur í Reykjavík.

Í viðræðum sem fram fóru við indónesíska ráðamenn í tengslum við afhendinguna lýstu þeir yfir vilja sínum til nánara tvíhliða samstarfs við Íslendinga m.a. á sviði sjávarútvegs og jarðhitanýtingar. Fiskvinnsluvélar hafa upp á síðkastið verið helsta íslenska útflutningsvaran til Indónesíu en m.a. húsgögn og fatnaður verið keypt þaðan.

Nokkrir Indónesar hafa sótt Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík á undanförnum árum og eru þrír nú væntanlegir í skólann. Unnið er að gerð loftferðasamnings milli Íslands og Indónesíu til þess að styrkja stöðu íslenskra flugrekenda sem eiga þarna töluverðra hagsmuna að gæta vegna stórra verkefna sem fengist hafa í þessum heimshluta, m.a. pílagrímaflug. Sérstakur áhugi kom fram hjá Indónesum á tilraunarekstri vetnisknúinna strætisvagna sem fram fer í Reykjavík þar sem mengun er verulegt vandamál í Jakarta og bifreiðum fer nú ört fjölgandi í landinu með batnandi afkomu. Indónesía hefur unnið sig upp úr efnahagskreppunni sem herjaði Asíulönd og er árlegur hagvöxtur þar orðinn yfir 4%. Lýðræði er að styrkjast, m.a. verður forseti lýðveldisins í fyrsta skipti þjóðkjörinn í kosningunum sem fram eiga að fara í sumar. Nýhafin er kosningabarátta fyrir þingkosningar í næsta mánuði og takast þar á frambjóðendur 24 stjórnmálaflokka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta