Hoppa yfir valmynd
11. mars 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004 -2007

Forsíða bæklings
Forsíða bæklings um stefnu ríkisstjórnar um upplýsingasamfélagið.

Stefna 2004-2007Einstaklingurinn, tækifæri hans og velferð í samfélaginu eru leiðarljós nýrrar stefnu um upplýsingasamfélagið. Í henni segir m.a. að upplýsingatækni veiti einstaklingum, atvinnulífi og opinberri þjónustu tækifæri til að nýta sér þær auðlindir sem felast í upplýsingum, þekkingu og nýsköpun. Því ber stefnan yfirskriftina:

Auðlindir í allra þágu Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007

Stefnan byggir á eftirfarandi framtíðarsýn: Einstaklingar búi við fjölbreytt tækifæri í lýðræðissamfélagi sem er í fararbroddi í nýtingu upplýsinga og þekkingar. Svigrúm verði fyrir alla til að þroskast, öðlast aukin lífsgæði og axla ábyrgð. Til að ná þessum markmiðum verður að nýta þau sóknarfæri sem felast í styrkleika og sérkennum lands og þjóðar. Örugg og öflug upplýsingatækni er verkfæri til þess.

Meginmarkmið stefnunnar eru:

  • Tækifæri. Aukin verði tækifæri einstaklinga og fyrirtækja til að miðla og sækja þekkingu, eiga samskipti og stunda viðskipti hvar sem er og hvenær sem er.
  • Ábyrgð. Forystumenn á öllum sviðum samfélagsins axli ábyrgð og vinni saman að því að upplýsingatæknin sé nýtt í þágu borgaranna og ólíkir einstaklingar geti fært sér hana í nyt.
  • Öryggi. Tryggður verði aðgangur fólks og fyrirtækja að traustu háhraðaneti á samkeppnishæfu verði. Öryggi upplýsinga og friðhelgi einkalífs verði höfð að leiðarljósi í þróun upplýsingasamfélagsins.
  • Lífsgæði. Stuðlað verði að auknum lífsgæðum og auðugra mannlífi með því að nýta möguleika upplýsingatækninnar í menntun, menningu, heilbrigðismálum og á öðrum sviðum samfélagsins.

Stefnan nær til áranna 2004-2007 og er verkefnum settur tímarammi og ábyrgð á einstökum verkefnum deilt niður á ráðuneyti eftir því sem hægt er. Áhersla er lögð á verkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu.

Ríkisstjórnin skipaði árið 2004 sex manna verkefnisstjórn sem er forsætisráðuneytinu innan handar um að tryggja framkvæmd stefnunnar. Hún er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta.

Ríkisstjórnin skipaði árið 2004 einnig fimm manna verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu sem hefur það verkfni að aðstoða og hvetja opinberar stofnanir til að vinna að meginmarkmiðum stefnunar. Hún er skipuð fulltrúum forsætisráðurneytis, fjármálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis ásamt fulltrúum Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnunar.

Auk þessa er starfandi samráðsnefnd ráðuneyta í málefnum upplýsingasamfélagsins sem skipuð verður fulltrúum allra ráðuneyta .

Í júní 2005 var settur á laggirnar samráðshópur hagsmunaaðila frá ríki, sveitarfélögum og atvinnulífi um málefni upplýsingasamfélagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta