Undirritun stjórnmálasambands
Stjórnmálasamband við Antígva og Barbúda
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og dr. Patrick Albert Lewis, sendiherra, fastafulltrúi Antígva og Barbúda hjá SÞ, undirrituðu í New York í gær, fimmtudag, samning um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Antígva og Barbúda er eyríki í Karíbahafi með liðlega 80 þúsund íbúa. Sykurrækt var lengi helsta atvinnugrein í landinu en hefur vikið fyrir ferðaþjónustu. Eyjarnar eru vinsæll áfangastaður lystiskipa á Karíbahafi. Efnahagur er hinn þriðji besti af Karíbahafsríkjum mælt í þjóðartekjum á íbúa.