Tilraun um framkvæmd vinnustaðanáms 2003-2005
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, mun í dag undirrita samninga við fimm fræðsluaðila um þátttöku þeirra í tilraun um vinnustaðanám. Tilraunin byggist á ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá desember 2002 og er tilgangur hennar að leiða í ljós hvort vinnustaðanám, skipulagt með ákveðnum hætti, sé heppilegur valkostur við núverandi fyrirkomulag.
Samkvæmt ákvæðum framhaldsskólalaga fer starfsnám bæði fram í skóla og á vinnustað eða eingöngu í skóla. Lögin kveða einnig á um gerð námskrár fyrir allt nám á framhaldsskólastigi. Hingað til hefur ekki verið hugað sérstaklega að inntaki vinnustaðanáms, en með tilrauninni verður breyting þar á. Ritaðar hafa verið lýsingar fyrir vinnustaðanám í allmörgum greinum og verður leitast við að fylgja þeim í starfsnámi fyrir sex greinar: hársnyrtiiðn, kjötiðn, prentsmíð, sjúkraliðanám, starfsnám fyrir verslunarstjóra og vélvirkjun. Valin verða 18 fyrirtæki til þátttöku í tilrauninni og munu þau fá sérstaka greiðslu fyrir að fylgja lýsingu á vinnustaðanámi markvisst eftir í kennslu nemenda á vinnustað. Tilraunin stendur yfir næstu tvö árin og verði árangur af henni góður má ætla að hugað verði að breytingum á núverandi fyrirkomulagi vinnustaðanáms. Sérstökum starfshópi hefur verið falið að gera tillögu um framtíðar fyrirkomulag vinnustaðanáms, fjármögnunarleiðir og skiptingu kostnaðar.
Þeir fræðsluaðilar sem taka þátt í tilrauninni eru: Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins, Fræðsluráð hótel- og matvælagreina, Prenttæknistofnun, Sjúkraliðafélag Íslands og Viðskiptaháskólinn á Bifröst.
Undirritun samninga fer fram í Þjóðmenningarhúsi og hefst klukkan 14:00.
Menntamálaráðuneytið, 16. mars 2004