Hoppa yfir valmynd
17. mars 2004 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Helgi Ágústsson sendiherra afhenti hinn 9. mars 2004, hr. Ricardo Lagos Escobar, forseta Chile, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Chile, með aðsetur í Washington DC.

Stjórnmálasamband milli Íslands og Chile komst á árið 1963, og var samkomulag þess efnis undirritað af sendiherra Íslands og sendiherra Chile í Washington 6. nóvember 1963. Sendiráð Íslands í Washington D.C. hefur frá þeim tíma annast stjórnmálasamskiptin af Íslands hálfu. Sendiráð Chile í Osló annast samskiptin af hálfu Chile.

Ræðissamband komst á milli landanna nokkru fyrr, eða árið 1961, en þá var skipaður kjörræðismaður fyrir Ísland í Santiago de Chile. Í Reykjavík er starfandi kjörræðismaður fyrir Chile.

Í september 2002 var gerður tvíhliða samningur Íslands og Chile um stjórn fiskveiða og fiskveiðirannsóknir. Árni Mathisen sjávarútvegsráðherra undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í heimsókn sinni til Chile. Unnið er að gerð loftferðasamnings á milli landanna og standa vonir til að hægt verði að ljúka honum innan tíðar. Einnig er unnið að tvísköttunarsamningi á milli ríkjanna.

Á sama tíma og fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Chile var undirritaður í júní 2003, var undirritaður fjárfestingarsamningur milli Íslands og Chile. Tryggir sá samningur fjárfestingarrétt Íslands þar í landi, sem ekki er tryggður í fríverslunarsamningnum.

Chile er áhugaverður markaður fyrir íslensk fyrirtæki. Grandi hf. á hluta í úgerðarfyrirtækinu Pesquera Friosur í Puerto Chacabuco í suðurhluta Chile. Á chílenska fyrirtækið Derco stærsta hlutann í fyrirtækinu. Eru afurðirnar aðallega seldar til Spánar, Ástralíu og Bandaríkjanna. Friosur hefur þegið mikla tækniráðgjöf frá starfsmönnum Granda.

Viðskiptajöfnuður Íslands við Chile er hagstæður. Innflutningur frá Chile hefur verið sveiflukenndur. Árið 2002 var andvirði innflutnings um 163 milljónir kr. Hefur innflutningur verið mestur á fiskafurðum, grænmeti, ávöxtum og drykkjarvörum, en einnig gúmmívörum og ýmsum iðnaðarvörum og vélbúnaði.

Útflutningur til Chile jókst jafnt og þétt fram til til ársins 2001 og var flutt út fyrir um 345 milljónir kr. það ár. Fór útflutningurinn síðan minnkandi og var um 208 milljónir kr. árið 2002. Hafa helstu útflutningsvörur frá Íslandi til Chile verið spunagarn, skepnufóður, vélbúnaður og unnar málmvörur.

Á meðfylgjandi heimasíðu eru töflur um viðskipti landanna og upplýsingar um inn- og útflutning eftir vörudeildum árið 2002:

http://www.vur.is/interpro/utanr/vur.nsf/Files/Chile/$file/Chile%202002.xls

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta