Jafnrétti kynjanna á Íslandi í upphafi 20. aldarinnar
Vont og verst
Vont er að láta leiða sig,
leiða sig og neyða.
Verra að láta veiða sig,
veiða og meiða.
Vont er að vera háð, verst að lifa af náð.
Gott að vera fleyg og fær
frjáls í hverju spori.
Sinnið verður sumarblær,
sálin full af vori.
Góðir áheyrendur.
Þannig orti Ólöf frá Hlöðum (1857–1933), en hún var fædd um miðja 19. öld.
Ólöf lifði hinar miklu umbreytingar í íslensku samfélagi um aldamótin 1900. Hún lærði ljósmóðurfræði í Reykjavík og fór til frekara náms í Kaupmannahöfn. Ólöf var langt á undan sinni samtíð og mikil kvenréttindakona, en fleiri konur gerðu sér grein fyrir því hve gott það væri „að vera fleyg og fær — frjáls í hverju spori“.
Í þessu erindi verða nokkrar konur nefndar sem voru frumkvöðlar í jafnréttisbaráttunni í upphafi 20. aldarinnar. Augljóst er að margir lögðu hönd á plóginn, bæði konur og karlar, og hér verður einungis fárra getið. Að öðrum ólöstuðum verður Bríetar Bjarnhéðinsdóttur getið oftar en annarra í máli mínu. Í stuttu máli mun ég fjalla um jafnrétti kynjanna í upphafi aldarinnar og horfa síðan á stöðuna í dag í ljósi horfinna tíma.
Segja má að íslenskar konur hafi látið að sér kveða með tvennum hætti við aldahvörfin: Þær reyndu að hafa áhrif með því að færa hefðbundin kvennastörf út af heimilunum og bundust samtökum um mannúðar- og góðgerðastörf. Þannig styrktu þær samhliða stöðu sína sem eiginkonur og mæður. Á hinn bóginn beittu þær sér fyrir réttindum kvenna út á við og var baráttan fyrir kosningarréttinum, svo og réttur kvenna til náms og starfa, meginatriðið í tilraunum kvenna til að styrkja stöðu sína utan heimilis. „Sú leið byggði á grundvallarbreytingum á hugsunarhætti og viðhorfum til hefðbundinnar stöðu kvenna en árangurinn lét á sér standa“, segir Sigríður Th. Erlendsdóttir í sögu Kvenréttindafélags Íslands, Veröld sem ég vil.
Á heimastjórnatímabilinu tók íslenskt samfélag stakkaskiptum og munaði mestu um breytingar í sjávarútvegi. Sveitafólk streymdi til sjávarþorpanna og vænti fleiri tækifæra þar en sem vinnuhjú í sveitum. Konur komu til höfuðstaðarins einkum til vinnukonustarfa, en margar þeirra unnu verkastörf. Dregið hafði úr kola- og saltburði kvenna og var hann að mestu úr sögunni snemma á síðustu öld. Langflestar verkakonur störfuðu við saltfiskverkun, bæði við fiskbreiðslu og fiskþvott. „Aðbúnaður við fiskvaskið var hörmulegur og margar konur biðu varanlegt heilsutjón í þeirri vosbúð sem þær máttu þola. Á veturna var aðkoma kvenna í fiskhúsum oft sú að þær urðu að byrja í morgunsárið á því að brjóta klaka sem sest hafði í þvottakörin um nætur.“ „Hugsaðu þér að þurfa að fara með hendurnar ofan í jökulkalt vatnið ... og vera í því liðlangan daginn. Það var ekki að undra að stundum liði yfir stúlkurnar.“ er haft eftir Jóhönnu Egilsdóttur verkakonu og verkalýðsleiðtoga.
Þrátt fyrir að konur tækju að sér erfiðisstörf til jafns við karla voru laun þeirra verulega lægri.
Til að átta sig á framförunum í íslenskri kvennabaráttu á heimastjórnartímabilinu er nauðsynlegt að varpa ljósi á hvað náðst hafði fram á sviði kynjajafnréttis fyrir og um aldamótin. Hver voru lífskjör íslenskra kvenna þá? Hver voru viðhorfin?
Bríet Bjarnhéðinsdóttir flutti, fyrst íslenskra kvenna, opinberan fyrirlestur í Reykjavík 1887 og fjallaði hann Um hagi og rjettindi kvenna. Þá sagði hún: „En konurnar eru frá fæðingunni ákvarðar til sinna vissu starfa, sem kölluð hafa verið kvennaverk, hvort sem þeim mundu láta þau vel eða illa. Drengirnir hafa átt að verða menn, sem gætu orðið færir um að ryðja sér braut til gæfu og gengis. En stúlkurnar verða konur, sem hefðu sinn takmarkaða verkahring í búri og eldhúsi.“
Störfum var þannig skilmerkilega skipt milli kvenna og karla. Flestar konur voru vinnukonur, en aðrar stunduðu illa launaða erfiðisvinnu. Um aldamótin voru ljósmæður einu konurnar í opinberum störfum. Giftar konur áttu ekki að stunda launavinnu nema brýna nauðsyn bæri til. Tekjur eiginmannsins áttu að duga. Þessi viðhorf hindruðu ekki einungis giftar konur; þau höfðu alvarleg áhrif á möguleika ógiftra kvenna. Litið var á launaða atvinnu konu sem tímabundið ástand – takmarkið var hjónabandið.
Kosningarrétt til sveitarstjórna fengu konur mun fyrr en rétt til að kjósa til Alþingis. Ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, fengu kosningarrétt til sveitarstjórna árið 1882 en kjörgengar urðu þær ekki fyrr en 20 árum síðar. Giftar konur fengu þennan rétt aldarfjórðungi síðar.
Konur fengu rétt til að ganga undir próf í Lærða skólanum, Prestaskólanum og Læknaskólanum árið 1886, en þær máttu ekki sitja í skólanum og fengu hvorki rétt til námsstyrkja né embætta. Þær flykktust því ekki í skólana eins og gefur að skilja.
Hið íslenska kvenfélag, fyrsta kosningarréttarhreyfing íslenskra kvenna var stofnað 1894. Ári seinna sendi félagið Alþingi áskorun um jafnrétti í öllum málum með undirskriftum fjölmargra kvenna.
Tvö kvennablöð eru gefin út á þessum tíma, Framsókn (1895–1901), og Kvennablaðið (1895–1919). Margir aðrir lögðu hönd á plóginn og má hér nefna Skúla Thoroddsen, ritstjóra Þjóðviljans, sem hélt á lofti fullu jafnrétti kvenna og karla frá stofnun blaðsins (1886) og konu hans Theodóru Thoroddsen skáldkonu.
Tækifæri til náms var, fyrir flestum konum snemma á 20. öldinni, aðeins fjarlægur draumur. Eitt af fyrstu verkum Hannesar Hafstein eftir að hann varð ráðherra 1904 var að veita stúlkum aðgang að Menntaskólanum. Konur gátu nú lært undir og tekið stúdentspróf án takmarkana. Bendir allt til þess að Bríet Bjarnhéðinsdóttir hafi verið með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin.
Kynni Bríetar og Hannesar Hafstein má rekja allt til þess að þau voru nágrannar, bæði íbúar í Helgahúsi við Þingholtsstræti. Á þeim tíma las Hannes fyrsta fyrirlestur Bríetar yfir að hennar bón árið 1887.
Kvenréttindafélag Íslands stofnað árið 1907. Í 2. gr. fyrstu laga félagsins segir að félagið skuli „starfa að því að íslenskar konur fái full stjórnmálaréttindi á við karlmenn, kosningarrétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.Varð Bríet fyrsti formaður þess. Sjö árum síðar er verkakvennafélagið Framsókn stofnað í Reykjavík (1914) og beitti Kvenréttindafélag Íslands sér fyrir stofnun þess. Jónína Jónatansdóttir hreyfði fyrst við þeirri hugmynd að Kvenréttindafélagið tæki málefni verkakvenna til athugunar og var hún formaður þess fyrstu áratugina. Verkakvennafélagið Þörfin var stofnað á Akureyri (1909), en starfaði aðeins í eitt ár. Ófaglærðir verkamenn í Reykjavík höfðu stofnað með sér félagið Dagsbrún nokkrum árum áður (1906).
Sama ár og Kvenréttindafélag Íslands var stofnað fengu konur í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarrétt og kjörgengi til bæjarstjórna. Eitt fyrsta verkefni Kvenréttindafélags Íslands var einmitt að beita sér fyrir framboði kvenna til bæjarstjórnarkosninganna í janúar 1908. Þær buðu fram ópólitískan (eins og Bríet komst að orði) Kvennalista og náðu fjórar konur kjöri, þar á meðal Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Fyrsta málið sem Bríet tók upp á bæjarstjórnarfundi var að tryggja að stúlkur nytu sundkennslu. Hún fór fram á 150 króna styrk til þessa, en áður hafði verið samþykkt að veita 450 króna styrk til sundkennslu drengja. Einn borgarfulltrúi á þá að hafa staðið upp og mælt: „Vel byrjar það. Var svo sem við öðru að búast. Ég tel hyggilegast að stemma á að ósi strax. Hér á ekki að líðast heimtufrekja.“ Stúlkurnar fengu styrkinn þrátt fyrir þessi mótmæli.
Frá 1901 til 1910 lauk aðeins ein stúlka stúdentsprófi frá Lærða skólanum, en piltar voru 151. Á sama tímabili útskrifaðist 31 stúlka með kennarapróf frá Flensborgarskóla en 57 piltar. Segja má að helsta tækifæri kvenna til mennta hafi verið að ná sér í kennarapróf. Það tryggði þeim enn fremur starfsréttindi.
Í bréfum Bríetar Bjarnhéðinsdóttur til barna sinna má sjá einkar litríka lýsingu á því þegar frumvarp um rétt kvenna til menntunar og embætta var lagt fyrir á Alþingi árið 1911. Bríet Héðinsdóttir sonardóttir Bríetar lýsir þessu samhliða því að birta brot úr bréfunum í bók sinni Strá í hreiðri um ömmu sína. Umræður um frumvarpið voru langar og með miklum endemum. Þar mun hafa komið fram að „að þótt konur séu „góð guðs gjöf til síns brúks“ þá séu þær ekki hæfar í embætti ... sem körlum séu sérstaklega ætluð. Þrasað um sýslumenn sem liggi á sæng, meint bann kirkjunnar við predikunarstarfi kvenna, „náttúruleg forföll“ og vanhæfni kvenna til ferðalaga“. Bríet hefur ef að líkum lætur átt sinn þátt í því að Hannes Hafstein mælti fyrir þessu frumvarpi og þótt mikið liggja við.
Athöfnina í þinginu setur sonardóttirin á svið í bókinni:
„Það er gaman að sjá fyrir sér Hannes Hafstein á þessari stundu þar sem hann – enn á tindi manndómsára sinna, fríður og föngulegur – stendur í ræðustól Alþingis og kveður niður þvættinginn í þessum þursaflokki. Og Bríeti á gægjum uppi á þingpöllum með lemjandi hjartslátt af spenningi, hlaupandi upp og niður stigana í leit að atkvæðum.“
Jafnréttisbaráttan hélt áfram. Kosningarréttur kvenna og kjörgengi hafði verið margsinnis til umræðu á Alþingi Íslendinga. Stjórnarskrárfrumvarp var samþykkt á Alþingi 1913 en samkvæmt því áttu konur og hjú, 40 ára og eldri, að fá kosningarrétt við staðfestingu stjórnarskrárinnar. Aldurstakmarkið átti síðan að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Helstu rök þingmanna fyrir 40 ára ákvæðinu voru að mikið skorti á að konur væru búnar undir skyldur þær sem réttindunum fylgdu og því varhugavert að „kasta þeim öllum allt í einu út á landsmálavígvöllinn“. Frumvarpið um kosningarrétt kvenna og kjörgengi varð að lögum með staðfestingu Kristjáns konungs tíunda þann 19. júní 1915.
Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi. Hún flutti merkt frumvarp um skipun opinberra nefnda árið 1927. Í því fólst áskorun til ríkisstjórnarinnar um að konur fengju sæti í nefndum sem skipaðar væru á vegum þingsins og vörðuðu almenning. Hún sagði að konur hefðu beðið eftir því að vera kallaðar til samvinnu um fleira en það eitt að kjósa í þau 12 ár sem þær hefðu haft kosningarrétt, en án árangurs. Þessi tillaga hennar náði ekki fram að ganga á þingi.
Skömmu fyrir aldamótin, en einkum á heimastjórnartímabilinu var grunnur lagður að nútímajafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þær bundust samtökum, gáfu út kvennablöð, stofnuðu Kvenréttindafélag Íslands og verkakvennafélög og þeim var veittur aðgangur að Menntaskólanum og síðast en ekki síst fengu þær kosningarrétt og kjörgengi, fyrst til sveitarstjórna og síðan til Alþingis.
Hvernig hefur svo til tekist?
Lítum á það í ljósi liðinna atburða. Margt hefur áunnist, sumt af því má rekja til bætts heilsufars þjóðarinnar, bættra vinnuskilyrða verkafólks og aukinnar menntunar. Þegar sjónum er beint sérstaklega að jafnrétti kynjanna, skal fúslega viðurkennt að ég vildi að við hefðum náð lengra. Vel hefur tekist til hvað varðar kröftuga menntasókn kvenna og atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er líklega sú mesta í heiminum.
Niðurstöður nýrrar skýrslu um efnahagsleg völd kvenna benda til þess að vinnumarkaðurinn sé mjög kynskiptur; að hann endurspegli að einhverju leyti þá staðreynd að námsval sé kynbundið. Kynbundinn launamunur kynjanna birtist einnig í þessu. Konur eru í meirihluta þeirra sem ljúka námi frá háskólum, en karlar sækja einkum í iðn- og tæknigreinar.
Í fyrirlestri sínum 1887 sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir: „En konurnar eru frá fæðingunni ákvarðar til að sinna vissum starfa, sem kölluð hafa verið kvennaverk.“ Enn í dag blasir þetta við, þrátt fyrir ákvæði um að „atvinnurekendur skuli ... stuðla að því að störf skuli ekki flokkast í sérstök kvenna- og karlastörf“. Það skiptir miklu að öllum tiltækum ráðum sé beitt til að draga sem mest úr því að störf flokkist í kvenna- og karlastörf. Í áætlun okkar í jafnréttismálum í tengslum við formennsku í Norðurlandaráði er rík áhersla lögð á þetta, ekki síst að beina körlum inn á hefðbundin svið kvenna, svo sem við hin margþættu uppeldis- og umönnunarstörf.
Annað atriði sem Bríet lét til sín taka og áður var nefnt, var sundkennsla stúlkna. Hún fór reyndar ekki fram á jafnan rétt drengja og telpna, en hún vildi tryggja að telpur fengju tækifæri til að læra sund. Öll börn í dag njóta leikfimikennslu í grunnskóla, en hins vegar er það þekkt innan íþróttafélaganna að stúlkur hafa til skamms tíma ekki notið jafnmikilla tækifæra og drengir til íþróttaiðkana.
Ingibjörg H. Bjarnason vildi tryggja konum tækifæri til að sitja í nefndum á vegum þingsins með frumvarpi árið 1927. Í jafnréttislögum er að finna sérstaka grein sem fjallar um þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, þar segir: „Í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar.“ Veruleikinn í dag er hins vegar sá að það eru langt í frá jafnmargar konur og karlar í þessum nefndum. Sem dæmi má nefna að í nefndum á vegum ráðuneytanna árið 2003 er hlutur kvenna allt frá því að vera 2% upp í að vera 39% hjá því ráðuneyti sem hefur kallað hlutfallslega flestar konur til nefndastarfa. Hér getum við gert miklu betur.
Góðir ráðstefnugestir.
Ég mun innan skamms leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Í áætluninni er lagt upp með afmörkuð verkefni, kveðið á um hvaða ráðuneyti eru ábyrg fyrir framkvæmd þeirra og hvaða aðilar aðrir komi að.
Í fyrri framkvæmdaáætlunum var stefnt að því að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Enn er nauðsynlegt að hafa þetta markmið að leiðarljósi þar sem árangurinn hefur ekki verið sem skyldi. Hér er þó rétt að benda á að samþætting er ekki markmið í sjálfri sér, heldur er það jafnrétti kynjanna sem er markmiðið. Það næst með því meðal annars að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Samþætting er aðferðin, eða verkfærið, sem getur gert það kleift að markmiðinu um jafnrétti verði náð.
Í áætluninni mun ég leggja til eftirfarandi stefnumarkandi áherslusvið til næstu ára:
- Samþættingu jafnréttissjónarmiða.
- Fræðslu um jafnréttismál.
- Jafnrétti á vinnumarkaði.
- Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
- Skilgreiningu á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.
Til að tryggja að raunverulegur árangur náist við framkvæmd verkefnanna sem tíunduð eru í framkvæmdaáætluninni er mikilvægt að gerð verði úttekt á árangri ríkisstjórnarinnar. Skilgreina verður á hvaða hátt þetta verður gert, en æskilegt er að slík úttekt verði gerð um mitt framkvæmdatímabilið og aftur í lok þess og mun ég beita mér fyrir því.
Stjórnvöld eiga að ryðja brautina en það er engu að síður mikilvægt að hinn almenni vinnumarkaður taki virkan þátt í því að ná fram jafnrétti kynjanna. Skýrslan um efnahagsleg völd kvenna sýnir að enn er til staðar kynbundinn launamunur í samfélaginu og hafa konur um 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma. Skýra má 21–24% launamunarins með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi. Eftir stendur 7,5–11% launamunur sem stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla.
Ljóst er að leita verður leiða til að uppræta launakerfi þar sem stöðuheiti, föst yfirvinna og bílahlunnindi eru notuð til að bæta lág laun sem samið er um í kjarasamningum. Markmið ríkisstjórnarinnar er að uppræta launamun kynjanna þannig að jafnrétti náist á þessu sviði.
Mikilvægur hlekkur á þessari leið er að standa vörð um foreldra- og fæðingarorlofið.
Það er von mín og ósk að okkur takist að tryggja dætrum okkar og sonum jafnrétti á öllum sviðum mannlífsins.
Góðir gestir
Mér hefur verið tíðrætt um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Bríet stóð í forystu íslenskrar kvennabaráttu í upphafi 20 aldarinnar og lagði hún grunn að jafnréttisvakningu meðal kvenna og annarra jafnréttissinna. Bríeti hefur ekki verið reistur bautasteinn eða minnisvarði eins og títt er um íslenska merkismenn. Úr þessu viljum við bæta. Ég gleðst yfir því að geta tilkynnt hér að ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu mína og umhverfisráðherra um að reisa Bríeti Bjarnhéðinsdóttur minnsvarða. Kvennasögusafn Íslands hefur bent á að vel væri við hæfi að reisa minnisvarðann að baki Alþingis þar sem áður stóð Bárubúð, en þar flutti Bríet fyrirlestur sinn um hagi og rjettindi kvenna árið 1887. Ég bind vonir við að sú staðsetning geti gengið eftir og verður gengið frá samkomulagi við Kvennasögusafnið um að undirbúa gerð minnisvarðans. Er að því stefnt að minnisvarðinn verði afhjúpaður árið 2006 en þá verða 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar.
Dagskrá þessa málþings er senn hrífandi og ögrandi. Viðfangsefnin eru fjölbreytt: Við lítum til baka, skoðum nútíðina, en horfum fyrst og fremst fram á veginn.
Gangi ykkur vel í dag.