Hoppa yfir valmynd
17. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um alþjóðleg barátta gegn mansali

Utanríkisráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu, í samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, um alþjóðlega baráttu gegn mansali föstudaginn 19. mars nk. Ráðstefnan verður haldin í Norræna húsinu kl. 13:00-17:00.

Utanríkisráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu, í samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, um alþjóðlega baráttu gegn mansali föstudaginn 19. mars nk. Ráðstefnan verður haldin í Norræna húsinu kl. 13:00-17:00.

Mansal er sú skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi sem er í mestum vexti í heiminum í dag að mati Sameinuðu þjóðanna en allt að fjórar milljónir manna, einkum konur og börn, eru seldar mansali ár hvert, oftast til kynlífsþrælkunar. Á ráðstefnunni verður lögð áhersla á baráttuna gegn mansali í alþjóðlegu samhengi með áherslu á starfsemi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Einnig verður gerð grein fyrir starfsemi alþjóðlegs vinnuhóps gegn mansali á vegum Stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact). Ennfremur fer fram kynning á verkefni jafnréttis- og dómsmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um átak gegn verslun með konur. Á ráðstefnunni verður jafnframt fjallað um samning Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, mun flytja inngangsávarp við upphaf ráðstefnunnar en aðrir ræðumenn eru Stephan Minikes, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá ÖSE, dr. Helga Konrad, formaður alþjóðlegs vinnuhóps gegn mansali sem starfar á vegum Stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact), Dís Sigurgeirsdóttir lögfræðingur, hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Eyjólfur Kristjánsson, lögfræðingur hjá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli.

Að loknum erindum málshefjenda verða fyrirspurnir og umræður. Ráðstefnan fer fram á íslensku og ensku og er öllum opin.

_______________________

Dagskrá ráðstefnunnar

Norræna húsið 19. mars.

13:00 Setning

13:10 Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra

13:30 Baráttan gegn mansali - framlag ÖSE. Fyrirlesari: Stephan Minikes, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá ÖSE

14:00 Mansal - alþjóðavædd glæpastarfsemi. Fyrirlesari: Dr. Helga Konrad, yfirmaður vinnuhóps Stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact)

14:30 Kynning á verkefni Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um átak gegn verslun með konur. Fyrirlesari: Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur, dómsmálaráðuneyti

14:50 Kaffihlé

15:20 Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi og viðauki um bann við verslun með fólk. Fyrirlesari: Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ

15:40 Mansal og Ísland - áþreifanlegur árangur. Fyrirlesari: Eyjólfur Kristjánsson, lögfræðingur, embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli

16:00 Fyrirspurnir

17:00 Ráðstefnuslit

Fundarstjóri er Ólafur Egilsson, sendiherra.

___________________________

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 16. mars 2004.

___________________________

Nánar til fróðleiks: http://www.utn.stjr.is/frettaefni/Efstabaugi/nr/2182

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta