Hoppa yfir valmynd
18. mars 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sköpunarkraftur og tækni

Þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um sköpunarkraft og tækni (Rethinking the Interface Between Human Creativity and Technology) verður haldin í Reykjavík dagana 20. – 23. mars.

Þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um sköpunarkraft og tækni (Rethinking the Interface Between Human Creativity and Technology) verður haldin í Reykjavík dagana 20. – 23. mars. Ráðstefnan er haldin í tilefni af formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni og er styrkt af henni, menntamálaráðuneyti og einkaaðilum. Ian Dent frá félagsvísinda- og stjórnmáladeild Cambridgeháskóla hefur haft veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar og fjórtán viðburðum sem henni tengjast.

Markmiðið er að miðla þekkingu og skapa tengsl milli fræðimanna, tölvunarfræðinga, líffræðinga og ungra skapandi listamanna svo þeir geti skipst á hugmyndum um möguleika stafrænnar tækni. Þverfaglegir vinnuhópar verða að störfum víðs vegar um borgina, svo sem í Listaháskóla Íslands, listamiðstöðinni Klink og Bank, Nýlistasafni og Þjóðarbókhlöðu. Skipuleggjendur ráðstefnunnar gera ráð fyrir að fjölmargir erlendir og innlendir fræðimenn og listamenn komi að viðburðum og vinnuhópum þá daga sem ráðstefnan stendur yfir.

Ráðstefnan verður sett í Listasafni Reykjavíkur laugardaginn 20. mars og lýkur í Bláa lóninu á mánudagskvöldi 23. mars. Yfir helgina munu fræðimenn halda fyrirlestra á Nordica-hóteli, m.a. verða uppákomur með íbúum við Hlemm, hljómleikar verða í Klink og Bank og sýningin Manyfacture verður opnuð í Nýlistasafninu. Þar sýna verk sín Dorothee Albrecht, Can Altay, Kristina Ask, Hyunjin Kim, Jacqueline Hoang Nguy, Hanna Styrmisdóttir, Christina Werner og Christine Wolfe. Afrakstur samstarfs listamannanna verður gefinn út á margmiðlunardiski og í bókarformi.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru dr. Sarat Maharaj frá Háskólanum í Lundi, dr. Niels Ole Finnemann Nielsen frá háskólanum í Árósum, dr. Torben Nielsen frá háskólanum í Ósló og dr. Helena Wulff frá háskólanum í Stokkhólmi. Öllum er heimill aðgangur að fyrirlestrum og viðburðum tengdum ráðstefnunni.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna og viðburði henni tengdri veitir Ian Dent frá háskólanum í Cambridge í síma 691 5619. www.creativityandtechnology.org

Menntamálaráðuneytið, 18. 3. 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum