Hoppa yfir valmynd
24. mars 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um veðurþjónustu

Umhverfisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um veðurþjónustu. Frumvarpið var unnið af nefnd sem var skipuð fulltrúum frá umhverfisráðuneytinu, Veðurstofu Íslands, samgönguráðuneytinu og samtökum atvinnulífsins. Hlutverk nefndarinnar var að skilgreina hver þáttur hins opinbera ætti að vera í almennri veðurþjónustu og veðurtengdri öryggisþjónustu sbr. 1. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985. Jafnframt var það verkefni nefndarinnar að gera tillögur um það hvernig opinberri veðurþjónustu væri best komið fyrir.

Á undanförnum árum hefur opinber veðurþjónusta, einkum sú veðurþjónusta sem Veðurstofa Íslands sinnir verið tekin til athugunar frá ýmsum hliðum. Í kjölfar kvörtunar frá fyrirtækinu Haló ehf. skilaði samkeppnisráð í lok apríl 2002 niðurstöðu um starfsemi Veðurstofu Íslands á samkeppnismarkaði. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum frá umhverfisráðuneyti og samgönguráðuneyti fjallaði á árinu 2002 um veðurþjónustu opinberra stofnana og í júní árið 2003 lauk stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Veðurstofu Íslands. Gerð er grein fyrir niðurstöðum framangreindra athugana í athugasemdum með frumvarpinu og viðbrögðum við þeim.

Opinber veðurþjónusta er skilgreind í frumvarpinu sem grunnþjónusta og rekstur grunnkerfa henni tengdri. Grunnþjónusta er miðlun rauntímagagna, vinnsla á almennum veðurspám og veðurhorfum, öryggisþjónusta og önnur veðurþjónusta sem Íslandi ber skylda til að veita samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þar um. Sérþjónusta í markaðsumhverfi er skilgreind og lagt til að sérþjónusta Veðurstofu Íslands verði rekin sem sjálfstæð eining og verði fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Ennfremur er í frumvarpinu að finna það nýmæli að kveðið er á um að aðgangur að þeim gögnum sem Veðurstofan framleiðir eða aflar við rekstur grunnkerfa og grunnþjónustu verði afhent þeim sem þess óskar gegn greiðslu einungis þess kostnaðar sem hlýst af afhendingu þeirra.

Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum